Almannatryggingar

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 14:36:08 (5835)

2001-03-15 14:36:08# 126. lþ. 91.2 fundur 541. mál: #A almannatryggingar# (tekjutrygging ellilífeyrisþega) frv. 9/2001, Frsm. minni hluta ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[14:36]

Frsm. minni hluta heilbr.- og trn. (Ásta R. Jóhannesdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að nota tækifæri til andmæla í andsvari til að taka undir með hv. þm. Þuríði Backman og ítreka það sem kemur einmitt fram í nál. okkar. Hér er verið að fjalla um mannréttindi. Það er verið að fjalla um mannréttindamál. Við eigum að skoða hvort það sé heimilt og standist ákvæði stjórnarskrár, alþjóðasáttmála o.s.frv. að mismuna fólki eftir sambúð eins og við erum að gera með lagasetningu þessari. Þó verið sé að minnka þær skerðingar er enn verið að mismuna fólki verulega eftir því hvort það er í sambúð eða ekki, hvort það er með fjölskyldu eða ekki. Hallað er á fjölskylduna í lagasetningunni og það eigum við að skoða. Ég átel stjórnarliðana fyrir að gera lítið úr því að við leggjum áherslu á að það þurfi að vanda löggjöf. Hér á þingi þarf að vanda lagasetninguna. Það ber ekki að gera lítið úr slíkum röddum.

Ég vil líka fagna því að við skyldum hafa fengið sérfræðinga á fund nefndarinnar í morgun sem lögðu mjög brýna áherslu á slíkt og bentu á að samkvæmt íslenskum lögum bæri að skoða lagasetningu í þessu ljósi, gagnvart jafnréttissjónarmiðum, gagnvart mannréttindum, gagnvart ýmsum öðrum lögum o.s.frv. Það ber okkur að gera. Það er á okkar ábyrgð sem alþingismanna að sinna slíkri vinnu og vanda vinnubrögðin í þinginu.