Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 14:44:29 (5837)

2001-03-15 14:44:29# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., Flm. JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[14:44]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Hér er fjallað um till. til þál. um að auka framboð á leiguhúsnæði. Ég hafði óskað eftir því, herra forseti, að hæstv. félmrh. yrði viðstaddur þá umræðu en mér skilst að hann sé ekki í húsi. En er það ekki rétt skilið hjá mér að hans sér að vænta innan smá stundar?

(Forseti (ÁSJ): Forseti getur upplýst að hæstv. félmrh. mun verða í húsinu það er ég best veit innan 15 mín.)

[14:45]

Ég ætla þá að hefja mál mitt í trausti þess að hæstv. ráðherra komi hér í hús og taki þátt í umræðunni, eða a.m.k. hlýði á það sem við höfum fram að færa.

Eins og tillagan ber með sér stendur að henni þingflokkur Samfylkingarinnar sem sýnir þann þunga og þá vigt sem þingflokkur Samfylkingarinnar vill leggja á þetta mál, að ráðist verði í átak til að auka framboð á leiguhúsnæði. Tillagan felur það í sér að ríkisvaldinu verði falið að hafa frumkvæði að því að ráðast í átak að fjölga leiguíbúðum og stuðla að viðráðanlegum leigukjörum í samráði við sveitarfélögin, verkalýðshreyfinguna og félagasamtök. Í því skyni á að gera fjögurra áætlun með það að markmiði að leysa húsnæðisvanda þeirra sem eru á biðlista eftir leiguhúsnæði og þeirra sem nú eiga hvorki rétt til almennra né félagslegra lána.

Herra forseti. Ég held að allir séu sammála um það og einnig stjórnarherrarnir þó að þeir viðurkenni það ekki opinberlega, að neyðarástand ríki á leigumarkaðnum, ekki síst á höfuðborgarsvæðinu. En biðlistinn eftir leiguhúsnæði vex dag frá degi og hefur tvöfaldast í Reykjavík frá því félagslega húsnæðiskerfið var lagt niður fyrir þremur árum. Í raun og sanni er það svo, herra forseti, að flest af því sem við höfðum uppi í stjórnarandstöðunni á þeim tíma um hvaða áhrif það hefði hefur gengið eftir, því miður.

Nú er staðan sú að um 2.000 einstaklingar og fjölskyldur á landinu öllu eru á biðlista og bara í Reykjavík er um að ræða 600--700 einstaklinga og fjölskyldur. Námsmenn sem bíða eftir íbúðum eru 300--400 og umsóknir hjá þeim voru um 835 á sl. ári, en einungis var hægt að verða við 60% umsóknanna. Hjá Öryrkjabandalaginu bíða 440 einstaklingar. Þar hefur biðlisti tvöfaldast á stuttum tíma og við þann lista bætast árlega um 100 manns.

Staðan er því vægast sagt ömurleg, herra forseti, og ég held að allir hljóti að skilja að þessu neyðarástandi verði að mæta. Hingað til hefur ríkisstjórnin mætt því mjög sérkennilega. Hún hefur mætt þessu neyðarástandi, herra forseti, með því að hækka vexti á leiguíbúðum upp í nánast markaðsvexti. Hún hefur einnig hækkað vexti á svokölluðum félagslegum hluta lána úr Íbúðalánasjóði sem eiga að vera til þeirra sem verst eru staddir. Þeir voru 2,4% fyrir þremur árum, en eru núna komin upp í 5,7%.

Flestir sem fá viðbótarlán og eru þegar með 85--90% lánað af íbúðarverði hafa þegar nýtt sér að fullu vaxtabætur og því er um raunhækkun á vöxtum að ræða sem ekki verður bætt með vaxtabótum. Sama virðist gilda hjá mörgum sem fá húsaleigubætur, að ef leiga hækkar vegna þessarar vaxtahækkunar verður það ekki bætt með húsaleigubótum.

Hægt er að sýna fram á, herra forseti, hvað við erum að tala um miklar fjárhæðir í þessu sambandi. Það kemur reyndar fram í skýrslu hæstv. félmrh. að þegar vextir af leiguíbúðum fara úr 1% í 4,9%, þá kallar það að óbreyttu, herra forrseti, á að leigugreiðslur á 60 fermetra íbúð hækkar úr 24 þús. á mánuði í um 41 þús. Ef bæta á upp þeim aðilum sem standa að uppbyggingu sveitarfélaga, þ.e. sveitarfélögunum eða félagasamtökum, þessa miklu hækkun á vöxtum annaðhvort með vaxtaendurgreiðslu eða svokölluðum stofnstyrkjum, þá þurfa stofnstyrkir á hverja íbúð að vera milli 2 og 3 millj. kr. á hverri íbúð, frekar nær 3 millj. kr. til þess að ekki þurfi að auka leigugreiðslur. Að öðrum kosti mundu þær hækka eins og ég hef sagt um 16 þús. kr. á mánuði, eða 192 þús. kr. á ári.

Allir sjá auðvitað að þetta gengur ekki vegna þess að þeir sem þurfa á leiguíbúðum að halda eru tekjulægsti hluti þjóðfélagsins. Þetta eru aðallega barnmargar, tekjulágar fjölskyldur, lífeyrisþegar, öryrkjar, einstæðir foreldrar og námsmenn.

Enda er það svo, herra forseti, að stöðnun er á uppbyggingu á leiguíbúðum. Ekki er margir sem nýta sér þær leiguíbúðir sem lánað er til og hæstv. félmrh. hefur verið að tíunda aukningu á, herra forseti, a.m.k. ekki á óbreyttum leigukjörum. Því hefur verið óvissuástand á undanförnum mánuðum í þessu efni vegna þess að ríkisstjórnin hefur boðað að hún ætli að grípa til aðgerða en við höfum ekki séð þær hingað til, að undanskildu því sem fram kom í gær, herra forseti, hjá hæstv. félmrh. að hann boðar að hann hafi skrifað bréf til lífeyrissjóðanna og óskað eftir samstarfi við þá um uppbyggingu á leigumarkaði og er það vissulega vel.

Ég hefði nú haldið að lánsframboð sem slíkt væri ekki það sem helst þyrfti. Lánsframboð hefur verið nægjanlegt á markaðnum. Spurningin er hvort lífeyrissjóðirnir geti lánað með hagstæðari kjörum en aðrar lánastofnanir, en lífeyrissjóðirnir hafa jú ákveðnum skyldum að gegna um ávöxtun á fjármunum sínum, þannig að í sjálfu sér hlýtur það að vera takmarkað hvað lífeyrissjóðirnir geti komið inn í það með mikilli niðurgreiðslu á lánsfé.

Það sem skiptir öllu máli í þessu efni er það sem hæstv. félmrh. nefndi í gær, þ.e. þessi svokölluð vaxtaendurgreiðsla eða stofnstyrkir --- og ég fagna komu hæstv. ráðherra hér inn í salinn --- og væri mjög gott ef hæstv. ráðherra gæti skýrt nokkuð betur en fram kom í máli hans í gær hvað um væri að ræða háa stofnstyrki.

Hæstv. ráðherra nefndi í ræðu sinni í gær stofnstyrki sem gætu verið 2--3%, ef ég man rétt, frá ríki og annað eins --- ég vænti að hæstv. ráðherra sé þá að hlusta á mál mitt af því ég er að beina spurningu til hans --- frá sveitarfélögum. Við hvað er hæstv. ráðherra þá að miða? Er hann að miða við af stofnverði íbúðar? Það er mjög brýnt að það komi fram hver viðmiðunin er. Erum við að tala um eitthvað sem gæti samsvarað 2--3 millj. á hverja íbúð? Ef það er svo mundi ég fagna mjög vegna þess að þá erum við að nálgast eitthvað sem samsvarar þeirri vaxtahækkun sem gengið hefur hér yfir á umliðnum missirum og mánuðum og þá væri það eitthvað sem mundi jafna mjög út það að ekki þyrfti að grípa til hækkunar á leigugreiðslum.

Að vísu á ég eftir að sjá það, herra forseti, að sveitarfélögin séu tilbúin að koma inn með svo miklar fjárhæðir, ef sveitarfélögin ættu að greiða sem samsvarar helmingnum af þeim stofnstyrkjum sem nauðsynlegir eru til þess að þurfi ekki að hækka leigugreiðslurnar.

Herra forseti. Ég sé að ég á ekki mikið eftir af tíma mínum en ég vil nýta hann til þess að gera aðeins grein fyrir þeim tillögum sem felast í þáltill. sem ég mæli fyrir.

Ég vil sérstaklega leggja áherslu á þann hóp sem hefur einnig lent á milli í þeirri breytingu sem varð á húsnæðiskerfinu 1998, þ.e. þann hóp sem ekki á rétt á lánum í húsbréfakerfinu eða er of tekjuhár til að eiga rétt á leigu\-íbúðum. Er hæstv. ráðherra að skoða einhverjar lausnir handa þessum hópi, annaðhvort að rýmka rétt til leiguíbúða, rýmka rétt til húsaleigubóta eða skoða einhvern valkost eins og var fyrir í kerfinu, kaupleigukerfið, sem nýttist bærilega þeim hópi sem þarna getur lent upp á milli? Ég vil í því sambandi nefna, af því að svo oft hefur verið talað um það að 100% lánin sem voru afnumin 1998 hafi engu skilað vegna þess að fólk hafi bara farið beint í gjaldþrot með 100% lán, þá liggur fyrir úttekt á því hvernig þessi lán hafa nýst þessum hópi. Frá 1988--1994 voru um 500 slík lán í gangi og það voru 10% af þeim hópi, sennilega um 58 lán samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef, sem lentu í vandræðum. Það er því ljóst að þetta skilaði sér verulega og auðvitað segir það sig sjálft að það er betri lausn út af greiðslubyrði hjá þessu fólki að fara slíka leið og eignast þá íbúðir, þó eignamyndunin sé ekki hröð en vera á leigumarkaðnum og borga 70--90 þús. kr. fyrir tveggja herbergja íbúð eins og fólki er nú boðið upp á.

Ég mun í síðari ræðu minni, sem ég mun væntanlega halda í dag þegar þessu vindur fram, fara inn á húsaleigubæturnar sem er mjög brýnt að afnema skattlagningu á og ég man ekki betur en hæstv. ráðherra hafi eilítið nefnt þær hér í gær og ég vil spyrja hann nánar um. Hvað er það sem hæstv. ráðherra er að tala um? Er hann að tala um að rýmka húsaleigubæturnar eða er hann að tala um að vinna að afnámi skattlagningar á húsaleigubótum? Ég hygg að það sé einn besti kosturinn sem hægt er að hugsa sér fyrir láglaunafólk, fyrir utan náttúrlega að efla leigumarkaðinn, að afnema skattlagningu á húsaleigubótum. Það er auðvitað hrein svívirða og brot á jafnræðisreglu, bæði stjórnarskrár og skattalaga, að önnur skattaleg meðferð sé á húsaleigubótum þegar það í ofanálag gerist að skattlagning á húsaleigubótum geti líka skert barnabætur og námslán hjá námsmönnum.

Við leggjum til í þessari tillögu að heimilt verði að veita 95% lán til sveitarfélaga og félagasamtaka í staðinn fyrir 90%. Og ég spyr hæstv. ráðherra: Kemur það til greina að hans mati, af því að við hugsum okkur framkvæmdaáætlun til ákveðins tíma, til fjögurra ára, þar sem leyst verði úr slíkri þörf, að tímabundið verði hægt að hækka þessi lán í 95% til þess að auðvelda að hægt sé að koma slíkum íbúðum á fót? Ég spyr um það sérstaklega.

Síðan höfum við farið yfir vaxtaendurgreiðslur og stofnstyrkina sem við leggjum mikla áherslu á og húsaleigubætur og tryggja að leigukjör fari ekki yfir 6% af stofnverði. Við höfum reiknað út að það gæti þýtt að leiga yrði um 25--30 þús. kr. á tveggja til þriggja herbergja íbúð.

Mikilvægt er að stimpilgjöld falli niður hjá framkvæmdaraðila. Núna, ef ég skil málið rétt, falla stimpilgjöld bara niður á íbúðum sem hafa verið með 1% vöxtum en ekki þegar þau eru komin upp í 3,9% vexti og það er auðvitað mjög óréttlátt að málum sé þannig háttað. Og eins er mikilvægt að kanna hvort hægt sé að gefa afslátt af gatnagerðargjöldum, sem eru töluvert há, ef ég skil málið rétt, eða um 200--300 þús. kr. á litla íbúð í fjölbýlishúsi.

Ég hef fjallað um skattlagninguna á húsaleigubótum og síðan samstarfið við lífeyrissjóðina, um að styrka átakið með kaupum á sérstökum húsnæðisbréfum. En ég hygg þó að það sé varla hægt að ætlast til þess að lífeyrissjóðirnir komi með mikið af niðurgreiddu fjármagni eins og ég sagði hér áðan.

Síðan leggjum við til að rýmkuð verði tekjuskilyrði fyrir rétti til leiguíbúða fyrir fólk sem á nú hvorki rétt til almennra né félagslegra lána eins og ég nefndi. Tekjuskilyrðin eru núna 2 millj. varðandi húsaleigubætur og 1.540 þús. fyrir einstaklinga varðandi leiguíbúð og 1.925 millj. fyrir hjón. Og þá er spurning hvort sé rétt að rýmka þetta tekjuviðmið þannig að fleiri hafi möguleika.

Síðan er hugmyndin sú að ríkið komi inn með 85% þess framlags sem þarf til að sú framkvæmdaáætlun nái fram að ganga, en sveitarfélögin 15% og er þar um töluverða fjármuni að ræða. Ég hygg að þetta geti verið einhvers staðar á bilinu 4--6 milljarðar eftir því hvað mikið kemur inn sem verði fellt niður af gjöldum sem hér er verið að tala um og hvort skattlagning húsaleigubóta verði afnumin.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er að ljúka. Tillagan gengur í stórum dráttum út á þetta. Mikilvægast er, herra forseti, að það er að nást að mínu viti nokkuð breið samstaða um það að fara þurfi í átak á þeim vettvangi að því er varðar leiguíbúðirnar. Menn geta deilt um hvaða leiðir á að fara í þessu efni, en ég hygg að flestir séu sammála því markmiði sem við hljótum að stefna að, þ.e. að létta af því ófremdarástandi sem nú ríkir á leigumarkaðnum.

Ég legg til, herra forseti, að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umr. og hv. félmn.