Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 15:07:55 (5839)

2001-03-15 15:07:55# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., RG
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja þetta: Þegar ég hlusta á hv. þm. Pétur H. Blöndal, 10. þm. Reykv., fjalla um þessi mál þá er eins og hann búi í einhverju öðru landi en við hin. Þar sem þetta er afbrags vel gefinn maður og hefur mikla þekkingu, ekki síst á efnahagsmálum, þá er mjög einkennilegt að hlusta á hann þegar kemur að því að ræða um það hvernig er hægt að tryggja mannsæmandi kjör hjá þeim sem minnst hafa og hvernig er hægt að haga málum þannig að í þessu landi búi ólíkir hópar hönd í hönd eða hlið við hlið á mannsæmandi hátt. Það er dálítið yfirgengilegt að hlusta á þingmanninn fjalla um þessa félagslegu þætti. En ég virði það við hann að hann hefur þá pólitísku skoðun að ekki eigi að vera með félagslegar aðgerðir eða úrræði. Ég geri mér grein fyrir því að okkur greinir í grundvallaratriðum á í pólitík þannig að þar með ætla ég líka að enda þennan pistil um ræðu þingmannsins með að það er grundvallarafstaðan sem er ólík hjá okkur tveimur.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur kynnt vel tillögu okkar sem hér er til umræðu og vegna hvers við leggjum til að fara þá leið sem við bendum á í tillögu okkar. Ég hlýt samt að draga það fram þó ég ætli ekki að fara yfir þessa tillögu eins og hún gerði að við erum að leggja það til að 95% lán verði veitt og ríki og sveitarfélög beri kannski þyngstan kostnað af þessu, samhliða því að leitað verði til annarra aðila um að koma inn í átak af þessu tagi.

Þá langar mig, herra forseti, að víkja að því bréfi sem hæstv. félmrh. Páll Pétursson kynnti í gær í fyrirspurnatíma þar sem hann skrifar til lífeyrissjóðanna, níu stærstu lífeyrissjóðanna, og viðrar stöðuna í þessum málum og að félmrn. telji mjög brýnt að fá fleiri aðila til að stuðla að auknu framboði leiguíbúða og fer yfir það hvernig hann sér fyrir sér að taka hugsanlega á málum og hvort lífeyrissjóðir sem lána sjóðfélögum til kaupa á eigin húsnæði geti komið til móts við leigjendur með því að eiga aðild að leigufélögum Búseta, t.d. með 10% láni til byggingarkostnaðar eða kaupverðs íbúðarinnar.

Ég hlýt að bera fram þá spurningu til hæstv. félmrh. hvernig hann sjái fyrir sér að hlutur ríkisins sé í þessu dæmi. Það er mjög mikilvægt að það komi hér fram.

Hins vegar hlýt ég líka að vekja athygli á því sem kemur fram í bréfinu um breytingar á húsaleigubótum, skattalegu umhverfi leigufélaga, hlut sveitarfélaga með framlagi í formi lóða- og gatnagerðargjalda og þetta er nokkuð það sama og við höfum verið að koma inn á í málflutningi okkar og sem rök fyrir þeirri tillögu sem við höfum borið fram þótt auðvitað sé hún mun ítarlegri en það sem er kynnt í þessu stutta bréfi.

En staðan er mjög alvarleg, herra forseti, vegna þess að gjörbreyting á félagslega húsnæðiskerfinu sem hæstv. félmrh. stóð fyrir hefur bitnað illilega á þeim sem eru verst settir og það er grundvallaratriði þegar gera á miklar breytingar að þá séu ný úrræði þegar til staðar þegar þau sem fyrir eru eru felld úr gildi. Annars myndast þarna gjá um tíma, lengri eða skemmri tíma, sem er þegar orðinn allt of langur í þessu tilfelli þar sem verða mjög mikil vandamál hjá þeim sem lenda á milli stafs og hurðar í lífi sínu og í þessu tilfelli í húsnæðismálunum.

Ráðherrann gerði miklar breytingar á húsnæðiskerfinu, m.a. á Íbúðalánasjóði, og átti að spara u.þ.b. 100 millj. á ári með þeim breytingum. Verkefnum var fækkað, sparnaður varð ekki, kostnaður hefur aukist um a.m.k. 100 millj. á ári undanfarin ár og nú eftir síðustu áramót komu fréttir um að hann nálgaðist á 7. hundrað millj. í stað þeirra 400 sem voru áformaðar. Sé ég fyrir mér að hægt hefði verið að nota þessar 300 millj. til ýmissa góðra hluta, annarra en þeirra sem fara þarna greinilega í launahækkanir til fárra.

Herra forseti. Það sem blasir við er að ríkisvaldið hefur fullkomlega skellt við skollaeyrum varðandi það hvaða áhrif þessar breytingar höfðu. Segja má að varðandi hag fólksins skipti minnstu að Íbúðalánasjóður varð svona dýrt fyrirbæri. Það sem skiptir máli eru afleiðingar breytinganna. Á sama tíma og felld voru út 100% lán, á sama tíma og félagslegar íbúðir voru í raun og veru afnumdar með lögunum og öllum vísað út á markað, þá gerðist það auðvitað að sveitarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu sem höfðu byggt hundruð íbúða á ári hættu að byggja, það var skrúfað fyrir það. Auðvitað er það ekki svo að markaðurinn taki bara við sér eins og hendi sé veifað og hann gerði það heldur ekki í þessu tilviki.

Því gerðist það að á sama tíma og miklir fólksflutningar voru til höfuðborgarsvæðisins þá var verið að byggja minna, allar byggingar sveitarfélaganna á svæðinu stóðu í stað og allir voru að leita eftir íbúð. Hvað þýddi það? Íbúðaverð hækkaði. Fasteignamat hækkaði, fasteignagjöld hækkuðu, eignarskattar hækkuðu. Þetta hafði áhrif á bætur, bæði barnabætur og vaxtabætur þannig að það gat munað tugum þúsunda kr. hjá einni fjölskyldu sem tekjuviðmið hafði að öðru leyti ekki breyst hjá. Það var alveg ótrúlegt að verða vitni að því hvernig ríkisstjórnin skellti fullkomlega skollaeyrum við þessu. Fólki sem var áður úthlutað félagslegu húsnæði hjá sveitarfélögunum var öllu ýtt út á almenna húsnæðismarkaðinn með fyrirheitum um viðbótarlán auk húsbréfanna en íbúðirnar hækkuðu margfalt meira en viðbótarláninu nam auk þess sem engin fyrirhyggja var með hvað ætti að gera fyrir þá sem áður höfðu fengið 100% lán. Þess vegna er mjög undarlegt þegar hæstv. félmrh. kemur svo hér eins og í gær og ber saman úthlutanir leiguíbúðanna eingöngu 1991, 1994 og 1995. Ég vona að hæstv. félmrh. skilji að þetta mál er víðtækara en svo og er í raun og veru algjör sorgarsaga sem Sjálfstfl. og Framsfl. bera fullkomna ábyrgð á.

Hér hefur verið farið yfir það, herra forseti, hversu miklir biðlistar eru hjá sveitarfélögunum. Talið er að í Reykjavík einni saman séu 1.900 eða 2.000 manns á biðlistum ef námsmennirnir eru teknir með, félagasamtök, sveitarfélög og námsmenn, og hefur verið lýst yfir af öðrum en okkur stjórnmálamönnunum að neyðarástand sé hjá hópum en þessi ríkisstjórn hefur ekki látið sig þá varða.

Þetta er það sem við erum að ræða hér, hvernig á að bæta úr hjá því fólki sem er sent út á leigumarkaðinn og íbúðir eru leigðar á 70, 80 og 90 þús. sem er u.þ.b. launin hjá mörgu þessu fólki.