Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 15:17:21 (5841)

2001-03-15 15:17:21# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þekki líka þessar ræður. En ég þekki ekki þessi dæmi. Ég þekki fjölmörg dæmi um stöðu fólks á leigumarkaði. Ég þekki ungar konur með tvö og þrjú börn sem eru að vinna, kannski allan daginn og í eftirvinnu og aukavinnu þar á eftir og eru örþreyttar á kvöldin að sinna heimilinu, til þess að komast yfir litla íbúð. Ég þekki líka ungar konur sem ætlast er til að borgi 60--70 þús. kr. á mánuði í leigu og því miður er það nú svo að oft og tíðum er ætlast til þess að það sé ekki gefið upp þrátt fyrir að við erum að reyna að búa til kerfi, sem þingmaðurinn er að setja út á, um húsaleigubætur en húsaleigubætur eru einn af velferðarþáttunum í öllum löndunum í kringum okkur.

Hv. þm. hefur áður tekið dæmi um þá miklu peninga sem fólk fær úr lánasjóðnum. Ég þekki ekki þau dæmi. Mér finnst þvert á móti að það sé frekar af skornum skammti sem verið er að veita til framfærslu námsmannanna, a.m.k. þar sem ég þekki til, en svo vill til að hér í salnum er sá maður sem gerst þekkir til. Ég vona að hann komi hér í ræðustól á eftir og upplýsi hvað það er sem fólk getur verið að fá í námslán af því það er líka einn þáttur velferðarkerfis okkar og ágætt að fá upplýsingar um það þegar við ræðum kjör fólks á leigumarkaði og hvernig standi á því, ef um er að ræða einhver ýkt dæmi eins og þingmaðurinn tekur að einhver sé að fá miklu meira en hann þurfi, það liggur í orðunum, af hverju því hefur þá ekki verið breytt? Ekki er verið að breyta kjörunum upp á við. Ekki er verið að láta þá sem minnst hafa hafa meira. Við skulum þá sameinast um það ef eitthvað slíkt er. En það er umræðan um velferðarkerfið sjálft, umræðan um það hvernig eigi að bæta hag þeirra sem minnst hafa. Það er í þeirri umræðu sem mér finnst sjónarmið mín og þingmannsins rekast á. Ég tek sérstaklega fram að ég er í engu að gera lítið úr þingmanninum heldur árétta að við erum með mismunandi pólitísk sjónamið í þessum sal.