Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 15:20:17 (5843)

2001-03-15 15:20:17# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[15:20]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Hvernig væri að hækka skattleysismörkin sem hafa verið fryst af hálfu þessarar ríkisstjórnar og þessara stjórnarflokka árum saman og hafa ekki fylgt útgjaldaviðmiðunum og vísitölum, hvernig væri það?

Af því þingmaðurinn talar um skatta, þá ætla ég að lýsa því yfir hér að það er ekki leiðin sem ég tel að við eigum að fara að lækka sífellt skattana og svo skuli bara allir borga þjónustugjöld og borga fyrir það sem þeir fá. Það eru nefnilega íhaldssamfélögin sem við viljum forðast. Guð forði okkur frá því. Ef við ætlum að vera með félagsleg úrræði þá reynum við að skoða hvernig við búum til réttlátt þjóðfélag. Hvernig gerum við fólki með ólíkar aðstæður og ólík kjör, því við munum aldrei getað jafnað þau, þó ég vilji taka undir með þingmanninum, að ég vona að við getum hækkað launin, þá eru úrræðin ekki þau að gera skattana sem lægsta og að fólk borgi svo bara þá þjónustu sem það fær. Það er sennilega sú mesta mismunun sem hægt er að hugsa sér.