Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 15:37:53 (5850)

2001-03-15 15:37:53# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., JÁ
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[15:37]

Jóhann Ársælsson:

Hæstvirti forseti. Ég sakna þess að ekki skuli fleiri sjónarmið hafa komið fram í umræðunni. Hér hafa talað fulltrúar Samfylkingarinnar og einn fulltrúi Sjálfstfl. Ég áttaði mig ekki alveg á því hvort hv. þm. Pétur H. Blöndal væri alveg á móti þessum tillögum sem eru til umræðu. Mér fannst hann fyrst og fremst vera að tala um aðra hluti en þær tillögur sem hér er verið að fjalla um. Mig langar til þess að nefna það samt úr máli hans hér áðan þar sem hann sagði að ástæðan fyrir því að það væri ekkert framboð á leiguíbúðum væri að það væri ekkert sniðugt að leigja út íbúðir. Menn fengju þetta ekki borgað og ekkert væri upp úr þessu að hafa eftir því sem ég skildi hann. Þetta er auðvitað hluti af vandamálinu, það er alveg rétt. En hvernig stendur þá á því? Það stendur auðvitað þannig á því að hér á Íslandi er stefna stjórnvalda í peningamálum sú að halda uppi himinháum vöxtum. Afleiðingin af þeirri stefnu er sú að það eru allt aðrar leiðir betri til að hafa arð af fjármagni sínu en að leigja út íbúðir. Samt sem áður er leiguverð á íbúðum svona hátt. Hvers vegna er það? Jú, auðvitað vegna þess að það hefur enginn haft áhuga á því að standa í því að eiga leiguíbúðir. Menn hafa haft alls konar möguleika á undanförnum árum hér á markaðnum sem hefur gefið mjög góða ávöxtun. En það er ekki fyrr en á síðasta ári sem fór aftur að halla undan fæti hvað þetta varðaði.

En þetta er ég að færa í tal vegna þess að greinilegt er að hæstv. ríkisstjórn og hæstv. félmrh. hafa gjörsamlega gefist upp fyrir þessu ástandi. Þar er tekin ákvörðun um að láta alla vexti sem viðkoma húsnæðismálunum vaða upp úr öllu valdi. Menn viðurkenna bara ástandið. Annars vegar eru það húsbréfin sem afföllin sjá um að séu alltaf í samræmi við aðra ávöxtunarkröfu á markaðnum og hins vegar eru leiguíbúðir þar sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. félmrh. í broddi fylkingar eru búin að ákveða að keyra upp vextina á örfáum árum úr 1% upp í 4,9%. Það munar nú um minna.

Síðan hafa þær breytingar sem hafa orðið í þessum húsnæðismálum valdið því að það stórvantar húsnæði á markaðinn. Flutningar fólks utan af landsbyggðinni hafa svo aukið enn á vandann á höfuðborgarsvæðinu. Þetta er auðvitað allt saman samverkandi. En það er kominn mikill pirringur í fólk yfir því að það skuli ekki hafa verið brugðist við með neinum hætti.

Hæstv. félmrh. lét gera skýrslu um ástandið. Sú skýrsla hefur legið fyrir þó nokkuð lengi. Mér finnst að tillögur hefðu nú átt að vera komnar fram fyrir löngu frá hæstv. ráðherra í þessu efni um hvað hann vildi gera. Ég svo sem veit ekki hvort mikill eðlismunur yrði á því sem hann vill gera í þessu og því sem hér er lagt til. Ég tók hins vegar eftir því þegar tillögur Samfylkingarinnar höfðu verið kynntar að það kom fram að vinstri grænir eru alveg á sama máli og við í þessu. Ég las einhverja undarlega grein sem formaður vinstri grænna, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, skrifaði í Morgunblaðið. Inntakið sem ég las út úr henni gekk út á að fara yfir það nokkuð nákvæmlega að allar tillögurnar sem við værum að leggja fram væru tillögur sem þeir hefðu fundið upp á einhvern tímann en voru samt ekki búnir að leggja fram. Ég er svo sem ekkert að setja út á að það séu til menn sem séu á sömu skoðun og við en mér finnst engin ástæða til þess að menn séu með einhverja geðvonsku yfir því þó Samfylkingin leggi fram tillögu sína. Ég hef síðan hlustað á fulltrúa vinstri grænna í þessu máli og ég sé ekki neinn eðlismun á því sem sá ágæti flokkur vill vinna í þessum málum og við viljum gera. Við ættum að geta náð góðri samstöðu um að reyna að þrýsta á að það verði farið að tillögum af þessu tagi sem hér eru til umræðu.

Ég held þess vegna að ástæða sé til að ganga eftir því við hæstv. félmrh. hvort þessar tillögur séu ekki vænlegar til að leysa þessi vandamál og hvort hann sé ekki tilbúinn til að vinna að breytingum á þeim því auðvitað erum við til viðræðu um það því það er ekki aðalatriði málsins að allt verði gert nákvæmlega eins og við leggjum til. Aðalatriði málsins er að hægt verði að leysa þennan alvarlega vanda. Það verður ekki gert nema það kosti eitthvað, það er alveg á hreinu. Ég held að það verði að horfast í augu við það að menn mega ekki setja þessi máli í samhengi við hávaxtastefnu ríkisstjórnarinnar. Menn verða að horfa langt fram í tímann í þessum málum. Það má ekki láta stjórnarstefnu í fáein ár verða til þess að húsnæðismálin gjaldi fyrir það á sama hátt og gerst hefur á undanförnum árum.

Þess vegna held ég að ástæða sé til að skoða vandlega þær hugmyndir sem hér eru. En auðvitað er ekki mikill tími til stefnu. Það er mjög brýnt að menn taki á þessum málum nú þegar. Ég skora enn og aftur á hæstv. félmrh. að láta hendur standa fram úr ermum því að auðvitað ræður hann úrslitum í þessu máli og hæstv. ríkisstjórn og beiti sér fyrir því að tekið verði á málum á svipuðum nótum og hér hefur verið lagt til.