Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 15:53:22 (5853)

2001-03-15 15:53:22# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég fagna þessari tillögu, þ.e. að hún skuli vera flutt. Ekki það að ég ætli að samþykkja hana í því formi sem hún er en ég er sammála þeim anda sem fram kemur í upphafsorðum tillögunnar sem eru svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisvaldinu að ráðast í átak til að fjölga leiguíbúðum og stuðla að viðráðanlegum leigukjörum í samráði við sveitarfélögin, verkalýðshreyfinguna og félagasamtök. Í því skyni verði gerð fjögurra ára áætlun með það að markmiði að leysa húsnæðisvanda þeirra sem eru á biðlista eftir leiguhúsnæði og þeirra sem nú eiga hvorki rétt til almennra né félagslegra lána.``

Ég lít svo á að hér sé að myndast samstaða um að brýnt sé að bæta úr þeim skorti sem óneitanlega er á leiguíbúðum á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef átt í könnunarviðræðum, eins og fram kom í umræðum í gær, við lífeyrissjóði, verkalýðshreyfinguna og samtök atvinnurekenda. Vegna góðra undirtekta við umfjöllun um leiguíbúðirnar hef ég beðið formlega um tilnefningu manna til að útfæra nánar þær hugmyndir.

Það vantar leiguhúsnæði fyrir venjulegt fólk, óháð tekjum. Það eru biðlistar hjá Félagsbústöðum og víðar. Biðlistana hjá Félagsbústöðum er kannski ekki alveg að marka því að Félagsbústaðir leigja með miklu betri kjörum en mér er sagt að séu á almennum markaði, a.m.k. finnast dæmi um það á almennum markaði að leiga sé þar langtum hærri en hjá Félagsbústöðum. Hjá Félagsbústöðum er leiga á stærri íbúðunum í kringum 40 þús., 42 þús. minnir mig á mánuði. Því er ekki óeðlilegt að fólk sæki í þær ef það telur sig hafa möguleika á að komast þar inn.

Sveitarfélögin eiga að sjá um þá sem þurfa á leiguhúsnæði að halda og geta ekki aflað sér þess með öðrum hætti vegna tekjuleysis eða annarra ástæðna þannig að þeir séu ekki einfærir um að komast í leiguhúsnæði. Öryrkjabandalagið hefur unnið stórvirki í að fjölga leiguíbúðum og ég hef gert samkomulag við Öryrkjabandalagið um að það byggi sambýli og sérhæft húsnæði fyrir fatlaða sem ríkið taki á leigu af Öryrkjabandalaginu. Aldraðir og námsmenn hafa líka staðið myndarlega að húsnæðismálum sínum og þannig komið til móts við verulega þörf.

Lífeyrissjóðirnir geta komið að þessu máli með ýmsu móti að óbreyttum lögum en lífeyrissjóðir mega ekki eiga fasteignir nema þær sem þeir þurfa til starfsemi sinnar. Hins vegar mega þeir eiga allt að 15% í hlutafélögum eða eignarhaldsfélögum, enda sé ávöxtun eðlileg á þeim fjármunum sem lífeyrissjóðirnir leggja í þau félög. Lífeyrissjóðirnir geta t.d. gengið til samstarfs við Búseta ef þeir svo kjósa og lagt fram 10% í framlag í hverja íbúð. Íbúðalánasjóður lánar 90% til leiguíbúða með 3,9% vöxtum.

Það er líka hægt að hugsa sér að nokkrir lífeyrissjóðir, kannski sjö þeirra, myndi eignarhaldsfélag eða hlutafélag um að byggja og reka leiguíbúðir, leggi fram þessi 10% en Íbúðalánasjóður lánaði 90%. Nú er það svo með lífeyrissjóðina að þeir lána sjóðfélögum til að kaupa eða byggja húsnæði. Vextirnir á þeim lánum eru 6--7%. Ég hef spurst fyrir um vextina hjá einum þremur. Það eru svolítið mismunandi vextir á þessum lánum en 6,5% er algengt. Ég tel að lífeyrissjóðirnir þyrftu ekki að hafa hærri ávöxtunarkröfu af því sem þeir verja til leiguíbúða. Það er viss sanngirni í að lífeyrissjóðirnir láni þeim sem eru að kaupa en þeir gera ekkert fyrir félaga sína á leigumarkaði. Það er ekki óeðlilegt þó að þeir komi eitthvað til móts við þá, jafnframt því sem verkalýðshreyfingin hefur á undanförnum áratugum komið mjög myndarlega að húsnæðismálum. Þá er eðlilegt að vekja þá hugmynd aftur til lífsins.

Ég hef líka viðrað þá hugmynd að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þar sem þessar íbúðir mundu rísa eða yrðu keyptar, leggi fram lóðir og gatnagerðargjöld, leggi það t.d. inn sem hlutafé.

Ég tel að húsnæðislöggjöfin hafi gefist vel en hins vegar sé of mikil spenna á húsnæðismarkaði á höfuðborgarsvæðinu, m.a. vegna flutnings fólks til höfuðborgarsvæðisins sem yfirgefur íbúðir úti á landi. Það hefur þurft tvær íbúðir á hverjum einasta degi á undanförnum árum, aðeins vegna þeirrar fjölgunar sem verður af aðfluttum. Þetta hefur orsakað það að þrátt fyrir miklar byggingar hefur verðið hækkað upp úr öllu valdi. Ég vil vekja athygli á því að vextir til leiguíbúða hafa ekki hækkað og að unnið er að samkomulagi um framtíðarfyrirkomulag á vöxtum til leiguíbúða samkvæmt bráðabirgðaákvæði í lögunum um húsnæðismál. Þessi lög skapa stórbætt úrræði fyrir tekjulága og ég skal aðeins fara yfir það.

Þau atriði sem við erum fyrst og fremst að kanna er skattlagning húsnæðisbóta. Ég tel að mikill fengur væri í að gera húsaleigubætur skattfrjálsar. Mér er hins vegar sagt í fjmrn. að fyrirrennari minn, Jóhanna Sigurðardóttir, hafi á sínum tíma samið um að þær yrðu skattaðar og fengnir viðbótarpeningar í húsaleigubætur. Ég vil kanna áhrif skattlagningarinnar. Við erum að tala um stofnstyrki, 3% frá ríki. Ef sveitarfélögin legðu til 2--3% þá gæti ríkið e.t.v. lagt til meira og fengið tilvísunarrétt. Síðan erum við að ræða húsaleigubótahækkun á móti hækkun vaxta þannig að leigukostnaður hækki ekki.