Framboð á leiguhúsnæði

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 16:07:25 (5856)

2001-03-15 16:07:25# 126. lþ. 91.3 fundur 512. mál: #A framboð á leiguhúsnæði# þál., Flm. JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir jákvætt innlegg hæstv. ráðherra í umræðuna. Það er kannski ekki oft sem ég og hæstv. félmrh. erum sammála en í megindráttum get ég tekið undir margt sem kom fram í máli ráðherrans. Í lokaræðu minni hér á eftir mun ég koma inn á nokkur atriði sem hann var með þar sem ég hef ekki tíma til þess nú.

En ég vildi þó segja við hæstv. ráðherra að hann láti þá í fjmrn. í guðanna bænum ekki rugla sig varðandi vilja hans til að afnema skattlagningu á húsaleigubótum. Hæstv. ráðherra þekkir forsöguna í því að þegar ég var að reyna að koma á húsaleigubótakerfinu kostaði það þetta að ég samdi við fjmrh. og fjmrn. um það að hækka húsleigubæturnar sem samsvaraði skattinum. Það þýddi þá að þeir sem voru skattlausir komu betur út úr þessu vegna þess að skattleysismörkin gerðu það að verkum að þeir þurftu ekki að borga skatt. En þetta var aðeins tímabundið til að koma húsaleigubótakerfinu á og allir vissu að það yrði ekki til frambúðar vegna þess að ekki er meiri hluti fyrir því innan þingsins og var reyndar ekki þá að hafa skattlagningu á húsaleigubótunum. En þær hækkuðu þá sem samsvaraði skattinum en auðvitað á að gæta samræmis í þessu við vaxtabætur.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, þegar hann talar um stofnstyrki og talar alltaf um 2--3%, hvað hann er þá að tala um? Er hann að tala um af stofnverði eignarinnar? Ég vildi gjarnan vita það svo að ég átti mig á þeirri fjárhæð sem hæstv. ráðherra er að tala um sem niðurgreiðslu á hverri íbúð vegna þess að það skiptir máli við hvað hæstv. ráðherra er að miða.

Það er alveg eðlilegt að lífeyrissjóðirnir komi inn í þetta eins og ráðherrann nefnir og ég er alveg sammála þeim rökum sem hæstv. ráðherra kallar þar til, en 6,5% vextir á 10%-hlutanum, ég sé ekki annað ef leigugreiðslurnar eiga að vera þær sömu, miðað við 1% vexti þá þurfi stofnstyrkir að vera meiri. En ég vildi aðeins koma inn á það í lokaræðu minni á eftir.