Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 17:12:11 (5873)

2001-03-15 17:12:11# 126. lþ. 91.4 fundur 483. mál: #A langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda# þál., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[17:12]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil lýsa yfir ánægju með þá niðurstöðu sem mér heyrist hv. þm. vera kominn að, vegna þess að ég met skoðun hans í þessu máli vegna þeirrar reynslu sem hann hefur, bæði sem skipstjórnarmaður og vegna þeirrar reynslu sem hann hefur af setu í skólanefnd Stýrimannaskólans.

Sannfæring mín er sú að það hversu mjög hefur fækkað í stýrimannsnámi sé að hluta til vegna þessara breytinga. Við þekkjum það vel að oft voru það reyndir sjómenn sem ákváðu að fara í skóla eftir að þeir voru orðnir sannfærðir um getu sína til sjós. Í dag virðist hins vegar vera reiknað með því að ungir karlar afli sér bóknáms og síðan taki þeir ákvörðun um hvort þeir ætli að verða sjómenn. Ég held að rangt sé í þá hluti farið. Ég kem sjálf úr sjómannafjölskyldum og horfi líka á það sem unglingakennari þar sem ég horfði á eftir sumum strákunum mínum á sjó og sumir skiluðu sér inn í Sjómannaskólann. Niðurstaða mín er orðin sú að þessi breyting hafi grafið undan stýrimannanáminu í raun og veru. Ég veit ekki einu sinni hvort það var í lagi að gera þessa tilraun, því að hún var gerð að mínu mati vanhugsað, vegna þess að í rauninni voru til rannsóknir sem sýndu okkur að það er fleira sem skiptir máli en hið bóklega þegar kemur að skipstjórn.