Langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda

Fimmtudaginn 15. mars 2001, kl. 17:14:05 (5874)

2001-03-15 17:14:05# 126. lþ. 91.4 fundur 483. mál: #A langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda# þál., KLM
[prenta uppsett í dálka] 91. fundur, 126. lþ.

[17:14]

Kristján L. Möller:

Hæstv. forseti. Sú till. til þál. sem hæstv. samgrh. hefur flutt er um langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda sem á að standa frá árinu 2001--2003. Það má spyrja, um leið og ég þakka fyrir þetta mál sem hér er flutt og mér sýnist vera mjög gott, hvers vegna þetta heitir langtímaáætlun í öryggismálum sjófarenda, sem á að standa bara í þrjú ár, spurning hvort þarna sé ekki um stystu langtímaáætlun að ræða sem menn ætla að fara í hin síðari ár. En það væri kannski frekar um hvað eigi að koma þarna eftir árin 2003.

[17:15]

Þessi þáltill. er um átak í öryggismálum sjómanna og ber að sjálfsögðu að þakka það. Það verður aldrei of mikið gert í þeim málum. Meginmarkmið þáltill. er að slysum til sjós fækki um a.m.k. þriðjung fram til ársins 2004 og að sama skapi dragi úr tjóni vegna sjóslysa.

Síðan finnst mér mjög gott og að það sé tímasett að í þessari þáltill. er fjallað um það að samgrh. skuli fyrir 1. apríl hvers árs, fyrst árið 2002, leggja fyrir Alþingi skýrslu um framgang áætlunar í öryggismálum sjómanna. Þetta tel ég vera mjög gott og hlýtur að vera til að veita aðhald í þessu máli þannig að það verði meira en að tillagan sé samþykkt og síðan fari þetta í einhvern hægagang. Mér sýnist að með þessu sé lagt til að þarna eigi að vinna vel að framkvæmdum málsins.

Eins og ég sagði áðan, herra forseti, er verið að fjalla um að fækka slysum um a.m.k. þriðjung og að sama skapi að draga úr tjóni vegna sjóslysa. En einmitt þegar þetta er lesið og það sem fylgir með sem segir á bls. 6 um kostnað vegna slysa og óhappa, með leyfi forseta:

,,Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, ,,Kostnaður vegna sjóslysa á Íslandi``, sem gerð var árið 1998 fyrir landlæknisembættið er árlegur heildarkostnaður vegna sjóslysa metinn á bilinu 3,2--4,3 milljarðar króna á verðlagi ársins 1997.`` --- Síðan segir, sem ég ætla nú ekkert að lesa, að það megi álykta að þessi upphæð sé í rauninni miklu hærri ef allt væri tekið til og ég er sannfærður um að svo sé.

Herra forseti. Þó að ekki sé nema þessi þáttur er fullkomlega eðlilegt að töluvert sé gefið í og tekið verulega á í þessum málum, vegna þess hve kostnaður samfélagsins, útgerða og annarra, er mikill hvað þetta varðar, að maður tali ekki um önnur atriði sem inn í þetta blandast eins og sárindi og það sem því fylgir.

Þess vegna hefði ég gjarnan viljað spyrja hæstv. samgrh. út í gjaldáætlun sem fylgir með þessari þáltill. um hvað þetta muni kosta, það er áætlað að þetta kosti 10 millj. árið 2001, 15 millj. árið 2002 og 20 millj. árið 2003, eða samtals 45 millj. kr. Eru þetta virkilega nægilegir fjármunir til að gera það mikla átak sem þarf að gera í þessum efnum?

Enn fremur finnst mér mjög athyglisverð sú tillaga sem hér kemur fram á bls. 9 um öryggisfulltrúa, en þar segir svo:

,,Koma þarf á öryggistrúnaðarmannakerfi fyrir áhafnir skipa sambærilegu og til er fyrir fyrirtæki í landi.

Öryggisfulltrúar útgerðar og áhafnar væru skipaðir í stærri skipum og stuðla þyrfti að því að þeir séu virkir. Skilgreina þarf verk- og valdsvið öryggisfulltrúa og útbúa þarf fræðslu- og leiðbeiningarefni fyrir störf þeirra.`` --- Svo segir m.a. í þessum kafla.

Herra forseti. Þarna er vitnað til trúnaðarmannastarfa í landi, trúnaðarmannastarfa stéttarfélaga og ég held þess vegna að það sé ákaflega mikilvægt að þessir öryggisfulltrúar fái svipaða stöðu gagnvart vinnuveitendum sínum vegna þess að við vitum það og þekkjum að oft lenda trúnaðarmenn í hinum ýmsu stéttarfélögum í miklum vandamálum. Þeir lenda oft og tíðum upp á kant við atvinnurekandann. Svo gæti einnig verið þarna og þess vegna hlýtur að vera mjög brýnt að staða öryggisfulltrúa um borð í skipum sé ákaflega vel tryggð í kjarasamningum. Ég veit ekki alveg hvernig á að koma að því máli og vil helst ekki ræða það meira vegna þess að kjarasamningar sjómanna eru eins og við vitum mikið ræddir einmitt á þessum degi og vonandi tekst þeim að ljúka samningum fyrir kl. 11 í kvöld þannig að ekki komi til verkfalls.

Herra forseti. Eins og ég sagði áðan er megináhersla í þessari þáltill. hvað varðar öryggismál sjómanna, forvarnir gegn slysum og óhöppum. Mér finnt mjög gott að svör skuli hafa borist frá 120 sjómönnum við þeim spurningalista sem sendur var út, að sjómenn hafi verið svo virkir við að tjá sig um þessi mál. Þar sem ég sit í hv. samgn. ætla ég ekki að hafa þetta lengra hér í umræðunni og segi að það var verst að hæstv. samgrh. gat ekki verið við þessa umræðu, það eru nokkrar spurningar í viðbót sem ég hefði viljað bera fram en þær bíða og verða lagðar fram í hv. samgn.