Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 18:43:22 (5902)

2001-03-19 18:43:22# 126. lþ. 94.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 126. lþ.

[18:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Aðeins ein örstutt lítil athugasemd. Ég held að enginn leiki sér að því að beita verkfallsvopni. Og ég held að íslenska sjómannastéttin geri það ekki, enda er hún seinþreytt til vandræða. Svo mánuðum skiptir hefur hún verið án samninga og hefur séð sig knúna til að stofna til verkfalls til að knýja fram lausn í deilunni sem hún á í við útvegsmenn. Þeir fyrstu sem verða fyrir búsifjum af völdum verkfalls eru sjómenn sjálfir.

Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort ég hafi heyrt það rétt að það væru sjómenn, sjómannastéttin sem væri að hafa verðmæti af íslensku þjóðinni. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvar hann telji ábyrgðina liggja í þessu máli. Hvort hún sé hjá sjómönnum sem hafa sýnt að þeir eru seinþreyttir til vandræða eða hjá útvegsmönnum sem mánuðum og missirum saman hafa staðið gegn öllum kröfum sem sjómenn hafa sett fram.