Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 18:45:24 (5904)

2001-03-19 18:45:24# 126. lþ. 94.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 126. lþ.

[18:45]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Sjómenn hafa nú verið samningslausir á annað ár. Þeir hafa verið samningslausir í sex og hálft ár á sl. 14 árum. Og nú kemur hæstv. sjútvrh. hér með frv. um að fresta verkfalli þeirra eftir að það hefur staðið í þrjá og hálfan sólarhring. Rök hans eru þau að það sé svo dýrt fyrir þjóðarbúið að sjómenn fari í verkfall. Samt ætlar hann bara að fresta verkfallinu fram til 1. apríl.

Herra forseti. Fyrst svo er, getur hæstv. ráðherra þá gefið aðilum nokkra uppskrift að því hvenær þeir geta hafið sína kjaradeilu, farið í verkfall og náð samningi í friði, án þess að það kosti nokkuð? Er sá tími til, herra forseti? Er hægt að fara í verkfall án þess að það kosti þjóðarbúið? Hvenær telur hæstv. ráðherra að sá tími komi?