Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 18:46:47 (5905)

2001-03-19 18:46:47# 126. lþ. 94.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 94. fundur, 126. lþ.

[18:46]

Sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (andsvar):

Herra forseti. Ef ég hefði einhverjar uppskriftir sem í eðli sínu ættu að vera til þess fallnar að tryggja lausn á málinu, þá værum við ekki að deila um þetta atriði. Staðreyndin er sú að ég hef ekki uppskrift að því. Ég er hins vegar að reyna það sem ég get og það sem ég tel skynsamlegt að gera af minni hálfu til þess að deilan verði til lykta leidd og það kosti þjóðarbúið ekki meira en nauðsynlegt er.

Það er vissulega rétt að sjómenn hafa verið samningslausir í rúma 13 mánuði og það er alls ekki gott, ekki ætla ég að mæla því bót. En munu þá 11 dagar skipta öllu máli um hvort deilan leysist? Er verra að deilan leysist án þess að komi til verkfalls? Er það verra? Er ekki betra ef hægt er að leysa deiluna án þess að til verkfalls komi?