Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 21:12:13 (5913)

2001-03-19 21:12:13# 126. lþ. 95.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 126. lþ.

[21:12]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Hér er til umfjöllunar frv. til laga um frestun á verkfalli fiskimanna. Eins og fram hefur komið hjá hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur og hv. þm. Guðjóni A. Kristjánssyni skrifa ég undir minnhlutaálit sjútvn. sem áheyrnarfulltrúi. Stjórnarandstaðan lýsir andstöðu sinni við að enn á ný skuli ríkisstjórnin beita sér fyrir því að Alþingi setji lög á kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna þegar til verkfalls er komið. Nú hefur verkfallið aðeins staðið yfir í rúma þrjá sólarhringa þegar ríkisstjórnin ákveður að fresta því til 1. apríl nk.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir telur stjórnarandstaðan fulla ástæðu til að óttast að inngrip ríkisstjórnarinnar muni leiða til þess að samningar dragist enn frekar á langinn en ella hefði orðið því nokkur skriður virðist hafa verið kominn á viðræðurnar. Samkvæmt upplýsingum frá deiluaðilum, virðist sem ekkert samráð hafi verið haft við þá þegar ríkisstjórnin tók þá ákvörðun að leggja frv. fyrir Alþingi sem kvæði á um frestun verkfalls fiskimanna.

Meginreglan í vinnurétti er sú að aðilar fái frið frá ríkisvaldinu til að semja um kaup og kjör. Það er ábyrgðarhluti að grípa inn í kjaradeilur og í raun og veru lítilsvirðing við samningsaðila að gefa þeim ekki svigrúm til samninga. Aðferð ríkisstjórnarinnar við núverandi aðstæður er sérstaklega ámælisverð þar sem hún er tekin í algjöru tómarúmi og án tengsla við þann veruleika að hreyfing var komin á viðræður. Stjórnarandstaðan lýsir algjörri ábyrgð á hendur ríkisstjórnarinnar og mun greiða atkvæði gegn frv.

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að mótmæli hafa komið frá samtökum sjómanna en þau mótmæla harðlega íhlutun stjórnvalda í frjálsan samningsrétt með því að fresta löglega boðuðu verkfalli sjómanna á fiskiskipum með lagasetningu. Þau telja að með þessum afskiptum séu stjórnvöld að grípa inn í kjarasamningagerð sjómanna í þriðja sinn á undanförnum sjö árum. Þau segja einnig að engin starfsstétt hafi þurft að þola slík inngrip jafnoft og sjómenn. Samtökin skora á félagsmenn að snúa bökum saman í baráttunni sem er fram undan.

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að þegar aðilar mættu á fund hjá sjútvn. nú rétt áðan kom öllum mjög á óvart að gripið skyldi til þessara aðgerða. Bæði Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasamband Íslands og Vélstjórasamband Íslands lýstu því yfir að þetta hefði komið þeim algjörlega í opna skjöldu og verið án samráðs við þá. Samkvæmt því mati sem var lagt á málin þar á bæ héldu menn að e.t.v. væru 2--3 dagar eftir í samningaviðræðunum. Ég vil þó taka það skýrt fram að Friðrik Arngrímsson hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, sem kom einnig á fundinn, taldi að lengri tíma hefði þurft en það sem sjómennirnir vildu meina.

En upp úr stendur að einhvern tímann verður þessi stétt að fá að semja við eðlilegar aðstæður. Það verður einhvern tímann að taka þann fórnarkostnað sem hlýst af því að þessir aðilar geti komið sér saman um kaup og kjör. Af þeim samtölum sem við höfum átt við sjómennina í dag kemur greinilega fram, og það er nú eitthvað sem hæstv. Alþingi þarf að taka til athugunar, að þeir telja að á sumum sviðum sé ríkisvaldið að leggjast á sveif með andstæðingnum í samningum, þ.e. útvegsmönnum, t.d. með því að vera uppi á borði, eins og fram hefur komið, með tillögugerð um fækkun í áhöfn skipa og breytingar sem á þá að lögfesta. Þetta eru hlutir sem við getum komið að hér og hæstv. ríkisstjórn ætti að taka og gaumgæfa í stað þess að kasta stríðshanska að sjómannasamtökunum.

Ég vil enn árétta, virðulegi forseti, að það liggur alveg í augum uppi að einhvern tímann verður að taka fórnarkostnaðinn við það að sjómenn geti samið á eðlilegum nótum. Við höfum verið með löng verkföll hjá öðrum starfsstéttum svo sem eins og kennurum. Þá hefur hæstv. ríkisstjórn ekki talið það til nokkurra vandræða að láta þá starfsstétt heyja margra vikna verkfall. En við gerum okkur öll grein fyrir því að þetta verkfall hefur gríðarleg áhrif fyrir þjóðarbúið. Tölur hafa verið nefndar hér eins og bara í loðnunni upp á einn og hálfan milljarð, þjóðin gerir sér grein fyrir því.

En eins og fram hefur komið verður einhvern tímann að taka þennan fórnarkostnað. Frestun er skammgóður vermir vegna þess að það eru aðrar tegundir sem veiðast árstíðabundið. Ef ekki næst samningur á þeim tíma leiðir tíu daga frestur til vandræða í að taka karfann og enn frekari frestur getur leitt af því að vandamál verða í sambandi við norsk-íslensku síldina og humarinn o.s.frv.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en vil lýsa því yfir megnri óánægju með það hvernig staðið er að málum. Það sem er líka umhugsunarvert eins og hefur reyndar komið fyrir í fleiri málum núna undanfarið það er þessi hraði á öllu. Það er eins og ekki sé hægt að vinna þingmál, vinna að málum á eðlilegan hátt, ef það er rétt mat sem fram kemur hjá hagsmunaaðilum að þeir hafi ekki fengið nokkra kynningu á þessu máli, þeir hafi ekki verið neitt hafðir með í ráðum, þeir hafi sumir frétt af þessu í fjölmiðlum. Þetta er náttúrlega algjörlega ótækt og ég tala ekki um hv. þm. sem frétta þetta síðan kannski síðastir allra og sumir úr fjölmiðlum. Þetta eru vinnubrögð sem við getum ekki látið líðast og eiga ekki að líðast á hinu háa Alþingi. Þess vegna mun ég eins og fram kemur í nál. minni hlutans greiða atkvæði gegn þessu frv.