Frestun á verkfalli fiskimanna

Mánudaginn 19. mars 2001, kl. 21:30:17 (5916)

2001-03-19 21:30:17# 126. lþ. 95.1 fundur 581. mál: #A frestun á verkfalli fiskimanna# frv. 8/2001, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 95. fundur, 126. lþ.

[21:30]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Enn hafa ráðherrar ríkisstjórnarinnar gengisfellt orð sín. Ekki er langt síðan hér voru digrar yfirlýsingar um að það kæmi aldrei til mála að setja nein lög á þetta verkfall. Hverjir munu trúa þeim næst? Það er alveg öruggt mál að við næstu samninga sjómanna mun enginn trúa því að friður fáist til þess að semja.

Sjómenn eru búnir að vera samningslausir í heila 13 mánuði og sex og hálft ár síðan 1985. Núna eru þeir búnir að vera í verkfalli í milli þrjá og fjóra daga. Og þá er brugðið á þetta ráð. Hver eru rökin? Jú, að bjarga eigi loðnuveiðunum. Það eigi að bjarga því sem bjargað verður af því sem hægt er að veiða af loðnu. Meira að segja er búið að reikna út hvað takist að bjarga miklu í nefndaráliti frá meiri hlutanum sem hér er, 1,5 milljarðar. Ég bið menn að muna þetta vel og fara yfir það þegar upp verður staðið hvort þessum 1,5 milljörðum verði bjargað. Það kann vel að vera að þetta verði Matador-peningar, því miður.

En þessar aðferðir þar sem meginreglur samninga eru brotnar ár eftir ár og alltaf á sömu aðilunum eru gjörsamlega búnar að eyðileggja möguleika þessara aðila til að semja. Ef þetta gengur fram í þetta skipti, þá held ég að menn geti alveg kvatt þá von að samningar verði eðlilegir í framtíðinni milli þessara aðila. Hver trúir því eftir að búið er að setja lög í fjórða skiptið á u.þ.b. sjö árum á samninga sjómanna að eitthvað þýði að fara í samninga og ætla að klára þá án þess að ríkisstjórnin skipti sér af því? Hver trúir því?

Það hefur komið mjög skýrt fram að ekki hefur verið beðið um aðstoð frá ríkisstjórninni í þessu máli. Hún bauð þetta fram. Þetta er bara orðinn kækur hjá ríkisstjórninni. Algjörlega ósjálfrátt er gripið til lagasetningar.

Þetta er auðvitað gjörsamlega ófært. Og flumbrugangurinn er slíkur að á nokkrum korterum breytast tillögur ríkisstjórnarinnar úr heilum mánuði niður í tíu daga. Hvað voru menn eiginlega að hugsa? Það hefur ekki verið mikið samband á milli ráðherranna og samningsaðilanna. Það er alveg á hreinu úr því þetta gengur svona fram.

Einnig hefur komið fram að farið var að ganga í samningunum. Það er full ástæða til að trúa því að menn hafi verið að stíga fram og nálgast markmiðin, þ.e. ná saman samningum. En ef pressan er tekin af, þá hvað? Er þá líklegt að menn nái samningum? Ég held ekki.

Ekki er ástæða til að halda langar ræður yfir þessu. Búið er að leggja málið fram hér. Að tefja málið í þinginu væri fáránlegt vegna þess að málið, eftir að búið er að leggja það hér fram, er farið að virka eins og ríkisstjórnin ætlaðist til. Menn vita að þetta verður klárað. Eina sem við mundum gera með því að tefja framgang málsins væri að koma í veg fyrir að flotinn færi út. Við værum ekki að flýta fyrir samningum.

Ég tel að ekki sé ástæða til að hafa hér langar ræður uppi. En ég vil a.m.k. láta mótmæli mín koma hér fram.

Það versta er, og ég ætla að endurtaka það, að eftir þetta munu varla margir trúa því að hægt verði að ná fram samningum án afskipta ríkisvaldsins þegar þessir aðilar eiga í hlut. Og það er mikill ábyrgðarhluti að stefna málum í þannig horf eins og hér er komið. Þessu hefur ríkisvaldið náð fram með slíkum endalausum afskiptum að búið er að eyðileggja gjörsamlega þennan samningsgrundvöll.

Ég vil, hæstv. forseti, hafa það sem lokaorð mín að ég held að rétt væri að hæstv. ríkisstjórn settist niður og velti því vandlega fyrir sér hvernig mögulegt er, eftir að búið er að fremja þetta axarskaft sem nú á að gera, að reyna að koma einhverju lagi á þessi mál aftur og fá samningsaðila til að trúa því að þeir geti sest við samningsborð eftir þetta án þess að ríkisstjórnin hafi afskipti af því.