Minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:15:34 (5927)

2001-03-26 15:15:34# 126. lþ. 97.91 fundur 416#B minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Synjun hæstv. forsrh. á því að svara efnislegri og skýrri fyrirspurn frá þingmönnum um tiltekið opinbert málefni er mjög alvarlegur atburður. Réttur þingmanna til að krefja upplýsinga er, eða a.m.k. á að vera, og hefur verið talinn mjög sterkur. Og skylda ráðherra til að svara fyrirspurn, sem hefur á annað borð verið leyfð á Alþingi, er ótvíræð. Þess vegna er hæstv. forsrh. að mínu mati á miklum villigötum að leggja það að jöfnu við að upplýsingalög og stjórnsýslulög verji ákveðnar upplýsingar gagnvart almennri eða opinberri birtingu. Þar er ólíku saman að jafna, rétti þingmanna sem helgast af því aðhaldshlutverki og þeirri upplýsingaskyldu sem þeir hafa með höndum varðandi opinbera stjórnsýslu og opinber málefni.

Láti menn sér detta í hug eitt andartak að slíkri beiðni væri hafnað í þjóðþingunum í kringum okkur þar sem alsiða er að þingnefndir hlutist til um rannsókn mála og hafa algjörlega ótakmarkaðan rétt til þess að draga fram allar þær upplýsingar sem þær vilja? Séu þær svo hernaðarlega mikilvægar að þær gætu skaðað hagsmuni ríkisins út á við geta ráðherrar gert aðvart um og óskað eftir því að farið verði leynt með upplýsingarnar. En þingmenn eiga eftir sem áður rétt á því að fá þær í sínar hendur.

Ég hlýt því að spyrja hæstv. forsrh.: Er innihald þessa minnisblaðs svo hroðalegt að hæstv. forsrh. telji það skaða hagsmuni ríkisins ef það verður opinbert? Vill þá hæstv. forsrh. veita þingmönnum, t.d. formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar, sem hér hafa spurt um málið, aðgang að þessum upplýsingum í trúnaði og láta á það reyna hvort þeir séu ekki menn til að virða þann trúnað ef einhver minnsta ástæða er fyrir honum?

Herra forseti. Þetta ber allt að sama brunni um hinn tortryggilega bakgrunn þessara mála allra saman frá 19. des. sl. Ljóst er að ekki bætir þvermóðska hæstv. forsrh. ástandið í þeim efnum heldur ýtir hún enn undir að knýja verði fram opinbera rannsókn á bakgrunni þessara atburða allra í heild sinni.