Minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:17:58 (5928)

2001-03-26 15:17:58# 126. lþ. 97.91 fundur 416#B minnisblað ríkisstjórnarinnar í öryrkjamálinu# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:17]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Það var reginmisskilningur hjá hv. þm. að upplýsingalög og stjórnsýslulög hefðu ekkert með þetta að gera. Ef það er svo að aðilar sem hafa beðið um tilteknar upplýsingar fá þær ekki, til að mynda vegna þess að slíkar upplýsingar eiga að fara leynt, ætlar hv. þm. þá að segja mér að hann trúi því að slíkar upplýsingar mætti ég gefa í heyranda hljóði ef öðrum væri neitað um þær vegna þess að það ber að neita um slíkar upplýsingar? Þannig talar hv. þm.

Það vill til varðandi þetta mál að þetta er ekki bara mat ráðherrans sem í hlut á heldur hefur sjálfstæð og óháð úrskurðarnefnd um upplýsingamál, sem starfrækt er á grundvelli V. kafla upplýsingalaga til að leysa úr þess háttar ágreiningsmálum, fengið þetta mál til meðferðar og hún hefur staðfest með sömu rökum og ráðherrann að þessum upplýsingum eigi að halda leyndum eða ekki sé skylt að svara þeim.

Þá er spurningin þessi: Finnst mönnum þá að í framhaldinu geti hvaða þingmaður sem er fengið í heyranda hljóði svör við spurningum þar sem fram kemur og hefur verið áréttað áður að slíkum spurningum beri ekki að svara til viðkomandi aðila? Mér finnst þetta liggja í augum uppi.

Það þýðir alls ekki að þetta skjal hafi að geyma einhver slík rosaleg leyndarmál sem sumir virðast ætla. Þetta lýtur bara ákveðnum lögmálum og lögin segja skýrt og greinilega til um það hvaða gögn séu opinber gögn og hvaða gögn séu það ekki. Þetta lýtur þeim lögmálum en hefur ekkert með það að gera að plaggið sé jafnstórfenglegt og menn virðast ímynda sér hér í salnum.