Samningar Íslandspósts hf. um dreifingu pósts á landsbyggðinni

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:41:27 (5942)

2001-03-26 15:41:27# 126. lþ. 97.1 fundur 410#B samningar Íslandspósts hf. um dreifingu pósts á landsbyggðinni# (óundirbúin fsp.), JB
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:41]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Með leyfisbréfi, dags. í Kópavogi 28. janúar 1998, heimilaði Póst- og fjarskiptastofnun Íslandspósti rekstur póstþjónustu. Í 1. gr. þess leyfisbréfs stendur:

,,Leyfishafi skal gegna skyldum ríkisins skv. 4. gr. laga um póstþjónustu með því að tryggja landsmönnum reglubundna grunnpóstþjónustu vegna eftirtalinna sendingartegunda`` sem eru svo taldar upp.

Jafnframt hefur það komið fram, herra forseti, að Íslandspóstur hefur samið við ýmsa aðila um að taka að sér rekstur póstþjónustu eða ákveðna þætti hennar víða um land. Af þeirri ástæðu leyfði þingflokkur Vinstri heyfingarinnar -- græns framboðs sér að skrifa svohljóðandi bréf til forstjóra Íslandspósts:

,,Þingflokkur Vinstri hreyfingar -- græns framboðs óskar hér með eftir að fá í hendur afrit af samningum sem Íslandspóstur hf. hefur gert við sjálfstæða rekstraraðila við starfrækslu póstþjónustunnar á landsbyggðinni.``

Herra forseti. Með bréfi, dags. 26. mars árið 2001, svarar Íslandspóstur þessari beiðni með eftirfarandi svari:

,,Íslandspóstur hf. mun ekki afhenda samninga er varða viðskiptahagsmuni fyrirtækisins nema til þeirra opinberu aðila sem fara með eftirlitsskyldur gagnvart fyrirtækinu, svo sem Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun.`` --- Bréfið er undirritað af Einari Þorsteinssyni forstjóra.

Herra forseti. Ég leyfi mér að spyrja hæstv. samgrh. hvort honum finnist þetta eðlileg viðbrögð og hvað honum finnst um að þingflokkur fái ekki aðgengi að svo mikilvægum samningum hjá þessu einkarekna fyrirtæki sem er algerlega í eigu ríkisins.