Innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:53:30 (5950)

2001-03-26 15:53:30# 126. lþ. 97.1 fundur 412#B innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:53]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Gin- og klaufaveikifaraldurinn kom til umræðu áðan og eins og hæstv. ráðherra veit geisar hann nú um Bretland sem aldrei fyrr og ljóst að trúlega verður helmingi af öllum klaufdýrum slátrað í Bretlandi á næstu vikum. Veikin hefur breiðst út til Írlands, Frakklands og Hollands og ef þessi veiki berst hingað til Íslands, þá eru menn hræddir um að slátra þurfi nánast öllum klaufdýrum á Íslandi í framhaldi af því.

Ég er ekki viss um, herra forseti, að landsmenn geri sér alveg grein fyrir þessu en ég vona svo sannarlega að hæstv. landbrh. geri sér grein fyrir þessu. Ég verð samt að segja að mér finnst gæta eilítils kæruleysis varðandi þessi mál almennt þó ýmislegt hafi verið gert. Ég hafði samband við embætti yfirdýralæknis og áfangaeftirlitið í morgun til að fá upplýsingar um innflutning gæludýrafóðurs frá Englandi og öðrum Evrópulöndum þar sem gin- og klaufaveiki geisar. Gæludýrafóður frá Englandi sem inniheldur svína- og nautakjöt er enn flutt inn þrátt fyrir aðvaranir. Nokkrar takmarkanir eru þó á þeim innflutningi frá Englandi en engar frá öðrum löndum Evrópusambandsins þar sem gin- og klaufaveiki geisar.

Innflutningur á korni og kornfóðri frá Englandi er enn leyfður án nokkurra takmarkana að sögn aðfangaeftirlitsins.

Ég spyr því hæstv. landbrh.: Hvað líður eftirliti með þessu stóralvarlega máli? Ég spyr: Er verið að samræma milli embætta hæstv. ráðherra og er verið að samræma á milli mismunandi deilda innan embættis hæstv. ráðherra? Ég hef áður spurst fyrir um þetta mál á hv. Alþingi og spurt hæstv. ráðherra. Ég lít svo á að ekki sé hægt að hvika í neinu. Það er aldrei hægt að gera of miklar ráðstafanir í slíkum málum, herra forseti.