Innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 15:55:48 (5951)

2001-03-26 15:55:48# 126. lþ. 97.1 fundur 412#B innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum# (óundirbúin fsp.), landbrh.
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég tek auðvitað undir það með hv. þm. að hvergi ber að hvika og grípa verður til allra þeirra ráðstafana sem verja okkur fyrir slíkum sjúkdómum. Hitt er svo annað mál að landbrh. verður í þessu efni að treysta á vísindin og vísindamennina og þær niðurstöður sem þeir þekkja í gegnum fræði sín. Það snýr auðvitað að því hvað er hættulegt og hvað er ekki hættulegt.

Ég hef auðvitað margfarið yfir það með embættismönnum mínum að grípa beri til allra ráðstafana og við eigum að njóta vafans. Við verðum að ganga svo langt að sé einhver smá áhætta, þá verði hún hvergi tekin. Ég verð því að treysta embættismönnum mínum í þessu efni. Ég þekki ekki þetta með gæludýrafóðrið sem hv. þm. minntist á, en ég mun enn og aftur ekki eiga annars kost en ræða þetta við mína menn eftir þá fyrirspurn sem hér er fram borin og fagna þeirri umræðu því að ég hygg að landsmenn geri sér fulla grein fyrir alvöru málsins og Íslendingar séu tilbúnir til að leggja mikið á sig til þess að verða ekki valdir að þeirri ógæfu að bera þennan sjúkdóm inn í landið.

Ég er þakklátur fyrir allan þann stuðning sem mér finnst hafa komið frá almenningi í landinu í þessum efnum. En aldrei er of varlega farið og við skulum grípa til raunhæfra aðgerða og láta íslensku dýrin, landbúnaðinn okkar og náttúruna njóta vafans á öllum sviðum.