Innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:00:13 (5954)

2001-03-26 16:00:13# 126. lþ. 97.1 fundur 412#B innflutningur gæludýrafóðurs frá gin- og klaufaveikisvæðum# (óundirbúin fsp.), KPál
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:00]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Mér finnst merkilegt að tala um að þetta sé pólitískur fengur. Það er ekki pólitískur fengur fyrir nokkurn mann að standa í þessum vanda. Mér finnst með ólíkindum að hæstv. ráðherra skuli leyfa sér að segja að ég sé að reyna að græða á þessu pólitískt. Ég tel mig ekki græða eitt einasta atkvæði á þessu og öll þjóðin tapar ef þetta fer illa. Það er enginn annar sem getur tapað á þessu en þjóðin.

Ég vil bara segja, herra forseti, að ég hef rætt þetta hér áður. Ég er ekki að koma aftan að neinum í þessu máli. Ég er búinn að ræða það hér á Alþingi og hef sagt þetta áður í þessum ræðustól, nákvæmlega hið sama og ég hef sagt nú. En að tala eins og ég hafi farið á bak við hæstv. ráðherra, það er öðru nær. Ég er tilbúinn til að vinna að málinu með hæstv. ráðherra og ég tel mig hafa gert það. Ég hef líka rætt þetta við hæstv. ráðherra persónulega. Ég tel því að í þessu máli hafi ég komið fram við ráðherra af fyllstu heilindum og að engin ástæða sé til að ætla annað.