Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:07:53 (5957)

2001-03-26 16:07:53# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:07]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þjóðhagsstofnun sendi nýverið frá sér spá sína um þróun efnahagsmála á næstu árum. Eins og fram kom hjá hv. málshefjanda eru meginniðurstöður þeirrar spár þær að efnahagshorfur fyrir næstu árin, eftir 2001, séu mjög hagfelldar. Það er gert ráð fyrir að árlegur hagvöxtur verði að meðaltali um 3% á árunum 2002--2005 en verðbólga verði að jafnaði um 3,5% og atvinna verði áfram mikil. Einnig er á það bent að hagvöxturinn verði jafnvel meiri ef ráðist verði í fyrirhugaðar fjárfestingar í áliðnaði.

Ef allt gengur eftir mun kaupmáttur lægstu launa hafa hækkað um rúm 40% frá því um miðjan áratuginn. Það er mikilsvert fyrir þau heimili í landinu sem minnstu hafa úr að spila. Hollt er að bera þessa kaupmáttaraukningu lægstu launa saman við hvað gerðist þegar vinstri stjórn var hér síðast við völd en þá dróst kaupmáttur lægstu launa saman um 20% --- hækkar nú um 40% en lækkaði þá um 20%.

Þjóðhagsstofnun gerir í skýrslu sinni að umtalsefni aukinn viðskiptahalla og bendir á að hallinn valdi nokkurri óvissu um þróun efnahagsmála á næstu missirum. Hallinn jókst á milli áranna 1999 og 2000 úr 7% af landsframleiðslu í rúm 10%. Í því sambandi er rétt að minna á hvernig þessi aukning er til komin.

Þriðjungur þessarar aukningar er vegna hækkunar á olíuverði, þriðjungur vegna hækkunar á vöxtum og þriðjungur vegna innkaupa á fjárfestingu og rekstrarvörum en þessi liður hefur hækkað tímabundið vegna fárra umfangsmikilla verkefna sem lokið verður nú á þessu ári. Þessi samsetning á aukningunni er mikilvæg og gefur til kynna að mjög hafi dregið úr neyslu í þjóðfélaginu.

Ljóst er að núverandi halli á viðskiptum við útlönd stafar ekki af lántökum og fjárfestingum hins opinbera. Þvert á móti stafar hallinn af ákvörðunum einstaklinga og fyrirtækja á markaðnum. Það er mat þeirra um framtíð og horfur í íslensku hagkerfi sem ræður gerðum bæði einstaklinga og fyrirtækja. Ég er ekki þeirrar skoðunar að þessir aðilar séu að meta horfurnar í efnahagsmálum rangt. Þvert á móti er það mat markaðarins, í samræmi við skoðun Þjóðhagsstofnunar, að efnahagshorfurnar til næstu ára séu hagfelldar. Þessi staðreynd skiptir miklu máli við mat á áhrifum viðskiptahallans.

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið til að vekja athygli á að nú eru öll teikn um að mjög sé að draga úr þenslu í hagkerfinu. Gleggsta vísbendingin er vafalaust sú að 12 mánaða breytingar skatttekna ríkissjóðs hafa lækkað verulega fyrstu tvo mánuði ársins, úr 24% 1999 í 17% árið 2000. Nú í ár er þessi tveggja mánaða breyting 9%. Þetta eru óræk merki um að mjög dragi úr þenslu í þjóðfélaginu. Haldi þessi þróun áfram má fastlega gera ráð fyrir að talsvert dragi úr innflutningi á árinu. Einnig má líta til þess að tólf mánaða breyting á almennum veltusköttum fór úr 34% árið 1999 í tæplega 5% á þessu ári. Þessar breytingar á skatttekjum ríkisins sýna svo ekki verður um villst að aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að draga úr þenslu hafi komist til skila. Þessar staðreyndir, auk þess að gera má ráð fyrir nokkurri aukningu útflutnings, gefa fullt tilefni til að ætla að viðskiptahallinn muni dragast saman á næstu missirum. Það er í samræmi við svokallaða fráviksspá Þjóðhagsstofnunar, sem mér finnst reyndar mjög sérstakt heiti. Sú spá byggir m.a. á því að einkaneysla vaxi einungis um 2,5% á árinu og vöxtur landsframleiðslu verði um 2--2,5%. Samkvæmt þeirri spá, sem byggir í raun á þeim forsendum sem aðrir hafa gefið sér og þar með ríkisstjórnin, þá verður viðskiptahallinn um 5,5% í lok þess tímabils sem þjóðhagsspáin tekur til.

Ég tel margt benda til þess að þróun efnahagsmála á næstunni verði nær þessari spá og að viðskiptahallinn verði umtalsvert minni en hann er nú. Að því leyti stefnir allt til þess sem ég hef áður sagt, að það takist að tryggja mjúka lendingu hagkerfisins eftir eitt mesta hagvaxtarskeið þjóðarinnar.

Ég vil líka vekja athygli á öðru. Hér er um spá að ræða og menn koma upp í þinginu í tilefni af þessum spám. Í des. sl. var birt ný þjóðhagsspá Þjóðhagsstofnunar. Þar sagði að verðbólgan á næsta ári, á milli ára, yrði 5,8%. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson kom upp hér á þinginu og fram í fjölmiðlum og sagði að þessi spá væri rothögg á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar --- það eru nú aldrei notuð litlu orðin --- rothögg á efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar. En nú í þessari spá, þremur mánuðum síðar, fer Þjóðhagsstofnun með verðbólguspána úr 5,8% milli ára niður í 4,4% á ári. Rothögg hv. þm. er nú orðið að vindhöggi miðað við þessa þrjá mánuði og miðað við þessar tvær spár. Af þessu sést hve hættulegt er að gjósa upp með of stór orð í tilefni af spám af þessu tagi. Á þessu vil ég vekja sérstaka athygli.

Varðandi aðra þætti í spurningum hv. þm. er það svo að spurningar um breytta stefnu er lýtur að stjórnun peningamála Seðlabankans verða kynntar alveg á næstunni. Ég tel ekki efni til þess að fara út í það mál á þessu stigi. Varðandi ráðleggingar Þjóðhagsstofnunar að öðru leyti þá eru þær flestar mjög almenns eðlis og í samræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt.