Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:17:40 (5960)

2001-03-26 16:17:40# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), SvH
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:17]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Góðærinu á Íslandi er haldið gangandi með erlendri skuldasöfnun. Menn skyldu halda að þetta væru ummæli svartagallsrausara úr röðum stjórnarandstæðinga, en svo er ekki. Fyrir um það bil ári voru þessi orð mælt af framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, Sveini Hannessyni: ,,Góðærinu á Íslandi er haldið gangandi með erlendri skuldasöfnun.``

Nýlega héldu Samtök iðnaðarins ársþing sitt og þar fjallaði formaður samtakanna sérstaklega um það sem hann kallaði blindflug, hið háskalega blindflug stjórnvalda í efnahagsmálum. Og ekki er líklegt að eins og nú er haldið um þann stjórnvöl að menn lendi mjúkri lendingu eins og það heitir. Það sem þeir eru að tala um er að sjálfsögðu viðskiptahallinn hinn ógnvænlegi. Það eru vextir, gengismál og síðast en ekki síst ríkisfjármál. Það er tækið sem hæstv. ríkisstjórn hefur til að hafa áhrif á þensluna í þjóðfélaginu. En því hefur ekki verið beitt.

Nefnd Alþjóðagjaldeyrisvarasjóðsins fór kurteislega með tillögur sínar um nauðsyn þess að taka sig verulega á í þessum sökum. Við afgreiðslu fjárlaganna stóðu menn hér, stjórnarandstaðan, á hálshnútunum við það að reyna að koma fram tillögum sínum um nauðsyn þessa. Því tilboði sem hv. þm. Jón Kristjánsson bauð fram um að við tækjum þátt í að finna ráð til þess arna er hér með tekið.

En síðan er það skyndilega þjóðhagsstofustjóri sem kveður upp úr með það að hér stefni í óefni. Og þá stóð auðvitað ekki á hæstv. forsrh. Hann stökk upp með sínu lagi og ávarpaði forstjórann, að vísu með öðrum orðum: Þegi þú seppi, þér hefur ekki verið sigað.