Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:27:30 (5964)

2001-03-26 16:27:30# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), JÁ
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:27]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það eru fleiri en Þjóðhagsstofnun og Samfylkingin sem hafa áhyggjur af viðskiptahallanum. Orsaka viðskiptahallans er líklega fyrst og fremst að leita í þeim þáttum sem kynt hafa undir vexti eftirspurnar og dregið úr sparnaðarhneigð. Óhófleg útlánaauking sem fjármögnuð var að verulegu leyti með erlendu lánsfé á þar stóran hlut að máli.

Hæstv. forseti. Þetta segir Seðlabankinn í riti sínu. Bankinn er í raun að tala um hagstjórn ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar sem felst í því að halda uppi nægilegu gjaldeyrisframboði með innflutningi á lánsfé. Bankinn hefur framkvæmt þessa stefnu ríkisstjórnarinnar og þurft að beita sífellt vaxandi afli í formi vaxta og sölu á gjaldeyri. Og samt fellur krónan.

Er það skynsamleg hagstjórn að halda vöxtum árum saman langt fyrir ofan þá vexti sem eru í helstu viðskipta- og samkeppnislöndum okkar til að halda gengi krónunnar ofar en það væri annars? Hagspekingar ríkisstjórnarinar hafa lýst yfir að þessi vaxtamunur sé til þess að gefa aðilum í viðskiptalífinu tækifæri. Tækifæri til að taka erlend lán og fjárfesta hér innan lands fyrir peningana. Þannig náist fram aukið framboð á gjaldeyri og þar með styrkara gengi krónunnar.

Þrátt fyrir þessa stefnu féll gengi krónunnar um 11% á síðasta ári. Stefnan mistókst gjörsamlega. Og þrátt fyrir 11% gengisfall á síðasta ári þurfti Seðlabankinn að selja dollara fyrir 1,6 milljarða núna fyrir helgina. Hann hefur nú aflað sér heimildar fyrir að kaupa dollara og selja fyrir 20 milljarða í viðbót. Þannig ætla menn að halda áfram að halda uppi innflutningi á gjaldeyri til þess að næra þann viðskiptahalla sem bítur í skottið á sér með þessum hætti.

Ófarnaðarmerki þessarar nýju hagstjórnar blasa alls staðar við. Seðlabankinn og Þjóðhagsstofnun hafa varað við, Samfylkingin hefur varað við, og fjölmargir sérfræðingar.

Hæstv. forseti. Því skipi sem nú siglir undir forustu Davíðs Oddssonar er stefnt í strand.