Viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:32:38 (5966)

2001-03-26 16:32:38# 126. lþ. 97.94 fundur 419#B viðskiptahalli og skýrsla Þjóðhagsstofnunar um þjóðarbúskapinn# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., kom hingað og sagði að sannarlega yrði lýst eftir samstarfi við Samfylkinguna og við stjórnarandstöðuna að því er að varðar ríkisfjármálin. Ég verð þess vegna að rifja það upp, herra forseti, að í upphafi kjörtímabilsins komum við fram með okkar varnaðarorð. Þá sögðum við að það þyrfti að gæta meira aðhalds í ríkisfjármálunum. Ég sagði þá sjálfur úr þessum ræðustól að draga þyrfti saman í vegaframkvæmdum og uppskar nú ekki lof og þökk fyrir hjá félögum mínum í þinginu vegna þess. Við höfum með öðrum orðum boðið fram samstarf til þess að efla aðhald í ríkisfjármálum.

Mér finnst ekki skipta máli, herra forseti, hvernig stendur á þessum viðskiptahalla í dag, hvort hann er vegna bensínhækkunar, vegna vaxta eða annarra hluta. Hann er staðreynd. Það þarf að fjármagna hann. Við þurfum að vinna gegn honum. Mér finnst hins vegar að ríki fullkomið skilningsleysi hjá hæstv. ráðherrum gagnvart því hvað vandinn er alvarlegur. Það dugar ekki að segja hókus pókus til þess að viðskiptahallinn hverfi. Það þarf að grípa til einhverra ráða.

Hæstv. fjmrh. sagði í síðustu viku að viðskiptahallinn væri nægilega alvarlegt vandamál til að hamla vaxtalækkun. Í dag finnst mér hann tala allt öðruvísi. Einn maður hefur talað eins og hann hafi engar áhyggjur af viðskiptahallanum og það er hæstv. forsrh. Hverjir eru það sem vara við viðskiptahallanum? Það er ekki bara stjórnarandstaðan. Það er ekki bara Samfylkingin. Það eru ekki bara Vinstri grænir. Það er Efnahags- og framfarastofnun Evrópu. Það er Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn. Það er Seðlabankinn. Það er Þjóðhagsstofnun.

Af því að menn voru að tala um stofnanir og meta lánshæfi Íslands gagnvart umheiminum þá held ég að hver einasta stofnun sem hingað hafi komi í þeim erindagjörðum hafi einmitt varað við viðskiptahallanum.

Það er rangt sem er haldið fram í þessari umræðu að forsendur Þjóðhagsstofnunar byggi á einhverri sérstakri bölsýni. Það er með engu móti hægt að halda því fram. Þvert á móti segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Spá fyrir árið 2001 byggir á þeirri forsendu að mjög hægi á skuldasöfnuninni og hluti kaupmáttaraukningarinnar verði nýttur til að greiða skuldir.``

Herra forseti. Það á að fara að þeim ráðum sem stofnanir gera. Það dugar ekki að segja bara hókus pókus.