Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:48:18 (5969)

2001-03-26 16:48:18# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:48]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Sparisjóðirnir á Íslandi eru 25. Ég tók eftir því að í ræðu sinni sagði hæstv. viðskrh. að í stað þess að héraðsnefndir eða sveitarstjórnir tilnefndu fulltrúa í stjórnir mundu stofnfjáreigendur eða væntanlegir hluthafar gera það. Því væri fróðlegt að fá upplýsingar, herra forseti, um hversu margir þeir sjóðir eru þar sem enn háttar svo til að annaðhvort sveitarstjórnir eða héraðsnefndir skipi einhverja af fulltrúunum. Það er ljóst að það er alls ekki svo alls staðar vegna þess að samþykktum einhverra sjóða hefur verið breytt á undanförnum árum þannig að eingöngu fulltrúaráðin tilnefna stjórnarmenn. Þar verður þá auðvitað um sáralitla breytingu, ef nokkra, að ræða. Þess vegna væri áhugavert að fá upplýst, áður en umræðan heldur lengra áfram, hjá hve mörgum sjóðum háttar svo til að sveitarstjórnir eða héraðsnefndir, eins og ráðherra nefndi, skipi fulltrúa í stjórnir.

Herra forseti. Í lokin vil ég taka fram að mér þykir dálítið merkilegt ef héraðsnefndir, sem eiga sér ekki einu sinni stoð í lögum, eru farnar að skipa menn í stjórnir fyrirtækja eins og sparisjóðanna.