Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:49:40 (5970)

2001-03-26 16:49:40# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:49]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að þetta er einungis heimildarákvæði. Það er heimilt að stofnfjáreigendur skipi alla stjórnina en sveitarfélög komi ekki þar að. Það er ekki kveðið nákvæmlega á um að svo skuli vera. Af því hv. þm. spyr hvernig þessu sé háttað í dag og í hve mörgum sjóðum þessu sé þannig fyrir komið að sveitarfélög tilnefni í stjórn þá er það þannig að í 36. gr. laganna stendur, með leyfi hæstv. forseta:

,,Í stjórn sparisjóðs skulu sitja fimm menn. Stofnfjáreigendur kjósa þrjá stjórnarmenn en hlutaðeigandi sveitarstjórnir eða héraðsnefndir tilnefna tvo stjórnarmenn samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum sjóðsins.``

Þannig hljóða reglurnar í dag og ég býst við og hlýt að gera ráð fyrir því að þeim sé framfylgt.