Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 16:51:43 (5972)

2001-03-26 16:51:43# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[16:51]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil nálgast efni þessa frv. út frá því viðhorfi að sparisjóðirnir hafi verið og séu ákaflega mikilvægar og merkar stofnanir í heimabyggðum sínum. Það er enginn vafi á að þær sameina ýmsa kosti samfara dreifræði og sjálfstæði eininga af þessu tagi. Þær nýta nálægð stofnananna við viðskiptavinina á starfssvæði sínu og gefa fólki þá tilfinningu að það eigi sameiginlegra hagsmuna að gæta í eigin viðskiptum og í eigin efnahag með þeirri stofnun sem þjónar því og það á viðskipti við. Að mínu mati er það einn lykillinn að því að sparisjóðunum hefur vegnað vel, nánast má segja ævintýralega vel. Vöxtur þeirra og aukin markaðshlutdeild á sl. 15--25 árum er ævintýri líkastur.

Það verða því ekki sótt rök í að aðkallandi vandamál eða bág staða sparisjóðanna nú um stundir eða á undanförnum árum kalli á breytingar á lögum um þá eða í starfsumhverfi þeirra. Þvert á móti er ástæða til að spyrja og muna eftir því: Þarf ekki einmitt að fara varlega og gera engar þær breytingar á starfsumhverfi sparisjóðanna sem veikt gætu þann grundvöll sem þeim hefur nýst svo vel?

Með þessu er ég ekki, herra forseti, að segja að ekki geti verið rök til að gera þarna breytingar enda hefur margt tekið breytingum í umhverfi fjármálastofnana hér á landi. Að sjálfsögðu rétt og skylt að fara yfir það og skoða. Breytingar hafa einnig verið gerðar sums staðar erlendis og gæti verið gagnlegt að fara yfir reynsluna af því. En menn skulu hyggja að hinu samtímis, að fara ekki út í neitt að svo lítt ígrunduðu máli að það gæti þegar upp er staðið haft áhrif til hins verra en ekki hins betra, sem auðvitað hlýtur að vera tilgangurinn með öllum breytingum.

Með þessu vil ég, herra forseti, fyrst og fremst leggja áherslu á að menn gæti sín og geri breytingarnar þannig úr garði og hafi lagaumhverfi sparisjóðanna áfram þannig að ekki glatist það sérstaka samband sem verið hefur á milli þeirra og viðskiptavinanna sem byggt hefur upp tryggð við þá og vinsældir sparisjóðanna sem þjónustusinnaðra stofnana sem tvímælalaust hafa orðið til þess að þeir hafa dafnað svo sem raun ber vitni.

Auðvitað eru aðstæður sparisjóðanna mismunandi. Sumir sparisjóðirnir eru einu bankastofnanirnar í viðkomandi byggðarlögum. Aðrir eru þar í samkeppni. Nokkrir þeirra eru hér á höfuðborgarsvæðinu í mjög harðri samkeppni við ærinn fjölda banka og útibúa. Það athyglisverða er að það verður ekki séð að mikill munur sé á velgengni þessara stofnana eftir því í hvaða umhverfi þær hafa starfað. Með sárafáum undantekningum sem tengjast oftast sérstökum áföllum í atvinnumálum eða öðru slíku, hefur sparisjóðum landsins vegnað mjög vel. Dæmin um hitt eru nánast teljandi á fingrum.

Ég held líka, herra forseti, að ástæða sé til að hafa í huga þá stöðu sem sjálfstæð fjármálastofnun í byggðarlagi gefur umfram það að starfrækja þar tiltölulega ósjálfstætt útibú fjarlægrar fjármálastofnunar eða banka. Grundvallarmunur er á aðstöðu hvað varðar ákvarðanir og sjálfsákvörðunarmöguleika forsvarsmanna í atvinnulífi eftir því hvort fjármálastofnunin sem menn eiga viðskipti við eða hafa þar aðgang að hefur sjálfsákvörðunarrétt í heimabyggð eða þarf að sækja slíkt um langan veg. Þar skiptir máli hvort um er að ræða tiltölulega ósjálfstætt útibú eða nánast afgreiðslustofnun eins og smærri útibú stóru bankanna eru því miður orðin.

Ég þekki mörg dæmi frá umliðnum árum um hversu mikils virði það hefur verið mönnum að hafa sjálfsákvörðunarvaldið sem fólgið er í sjálfstæðri fjármálastofnun. Ætli uppgangur smábátaútgerðar í Bolungarvík, svo dæmi sé tekið, væri sá sem raun ber vitni nema vegna þess að þar höfðu menn heimamenn aðgang að fjármálastofnun sem vildi axla ríkar skyldur í atvinnumálum byggðarlagsins og leggja eitthvað af mörkum til að efla atvinnulíf þar í kjölfar áfalla sem orðið höfðu? Ég leyfi mér aðeins, herra forseti, að nefna hér eitt tiltekið dæmi en ég kann þau mörg fleiri.

Þetta sjálfstæða fjármálavald í heimahéraði er mér mikið umhugsunarefni, ekki síst í ljósi þróunar fjármálastofnana að öðru leyti. Þar hefur hallað sérstaklega á möguleika hinna dreifðu byggða og landsbyggðarinnar til að sækja sér fjármagn til atvinnuupbyggingar. Menn upplifa ákvörðunarvald stóru fjármálastofnananna fjarri sér þegar kemur að því að taka áhættu í atvinnumálum í fjarlægum byggðum þar sem þörf er á staðbundinni þekkingu. Sú þekking er oft takmörkuð og skilningurinn á viðleitni manna til að efla atvinnulíf í hófi, svo vægt sé nú til orða tekið.

Sú breyting hefur einnig orðið, herra forseti, með sameiningu fjárfestingarlánasjóða í banka, að atvinnugreinar sem áttu áður vísan aðgang að grunnfjármagni á föstum kjörum til fjárfestinga eiga það ekki lengur. Forsvarsmenn í sjávarútvegi eða iðnaði koma því iðulega að lokuðum dyrum þegar þörf er á grunnfjármögnun fjárfestinga sem þeir áttu áður vísa í fjárfestingarlánasjóðum.

Að öllu þessu, herra forseti, finnst mér ástæða til að hyggja þegar við erum að ræða breytingar á sparisjóðunum, sem taka vissulega aðeins til þeirra byggðarlaga þar sem þeir eru til staðar en það eru einmitt fjölmörg byggðarlög, mörg af minni byggðarlögum og afskekktari landsvæðum, sem eiga ekki á vísan að róa með fyrirgreiðslu annars staðar en hjá sinni heimastofnun.

Samstarf sparisjóðanna, þó litlir séu margir hverjir, hefur gert þeim kleift að ráðast í verkefni sem ofvaxið er þeim einum og sér. Þannig hefur keðjan sem sparisjóðirnir hafa myndað með samstarfi sínu náð að standast í samkeppni og skilað mikilvægu hlutverki.

Í þriðja lagi, herra forseti, vil ég minna á að hér erum við að ræða um mjög merkar samvinnustofnanir, félagslega uppbyggðar stofnanir, sjálfseignarstofnanir sem lúta lögmálum sem eiga mjög undir högg að sækja í hinum markaðsvædda þankagangi samtímans, þar sem allt er orðið markaðsvætt og ,,háeffað`` og meira að segja mannshugurinn að verulegu leyti, ef marka má það hvernig margir tala. Hér er þó dæmi um stofnanir þar sem menn leggja í samlag til að byggja upp og láta afraksturinn af starfseminni, arðinn eftir því sem hann er til staðar, verða eftir í stofnuninni og þjóna þeirri uppbyggingu og markmiðum sem hún á að sinna. Þar er ekki um að ræða að menn líti á þetta sem hefðbundinn atvinnurekstur, í þeim skilningi að menn ætli sér í stórum stíl arð af starfseminni til að draga út úr henni og fara með annað. Þetta er grundvallarmunur sem ástæða er til að muna eftir.

[17:00]

Herra forseti. Ef menn fara út í breytingar á lögum um sparisjóði þá kemur að spurningunni um hvaða leiðir eru þá vænlegastar í þeim efnum. Fyrst ber að sjálfsögðu að bera upp spurningarnar: Eru ástæður til þess? Er eitthvað sem kallar á að þetta sé gert? Er það skynsamlegt yfir höfuð? Vissulega má færa fram rök fyrir því að sparisjóðunum hafi vegnað vel á grundvelli núgildandi lagaumhverfis og ekkert sérstakt hafi a.m.k. enn komið í ljós sem bendir til að það geti ekki haldið áfram.

Þó eru vissulega til staðar hlutir, herra forseti, eins og ég hef áður nefnt, sem gera það að verkum að eðlilegt er að fara yfir hlutina. Þá nefni ég fyrst og fremst það sem er staðreynd að sumir sparisjóðirnir hafa vaxið það hratt á undanförnum árum, þeim hefur einfaldlega í þeim skilningi ,,vegnað svo vel`` að vöxtur þeirra hefur verið það hraður að eiginfjárhlutfallið hefur lækkað sem hlutfall af umsvifum þeirra vegna þess að þeir hafa verið að sækja á, bætt markaðshlutdeild sína, aukið viðskipti sín þannig að þeir hafa færst neðar á viðmiðunartöflunni hvað þetta varðar.

Menn geta auðvitað spurt sig hvort ekki verður þá að grípa til sérstakra ráða eins og þeirra að opna möguleika fyrir sparisjóðina að sækja sér aukið eigið fé ef þetta á ekki að verka hamlandi á frekari vöxt þeirra á komandi árum. Svarið er auðvitað jú. Það er rétt út af fyrir sig. Getur komið að því og rekur að því að einhverjir af sparisjóðunum sem hafa vaxið hraðast á undanförnum árum mundu með sama áframhaldi rekast á neðri mörk BIS- eða CAT-reglanna eða hvað þær heita um þessar mundir? Það er alltaf verið breyta skammstöfunum. Ég er að vísa hér til hins viðurkennda eiginfjárhlutfalls sem má ekki fara niður fyrir tiltekin mörk og við höfum skuldbundið okkur til að hlíta.

Menn geta svo sem spurt áfram: Er endilega ástæða til, er það endilega markmið í sjálfu sér eða keppikefli stofnana, að vaxa svo hratt að þrátt fyrir góða afkomu og þrátt fyrir að allur arðurinn af starfsemi þeirra byggist upp innan þeirra sjálfra að þetta hlutfall lækki? Og gætu menn ekki haft bara gott af því að rifa þá aðeins seglin og sigla aðeins lygnari sjó um stund? Ýmsir kynnu að segja að það gæti vel verið svo að það væri nú farsælla auk þess að ekki væri víst að sama þensla verði almennt á þessum markaði á komandi árum eins og verið hefur nú að undanförnu af ástæðum sem allir þekkja. Kannski er líklegra að stofnanirnar almennt á fjármálasviðinu og í bankaþjónustu þurfi að búa sig undir á framtíð á næstunni að rifa frekar seglin en hitt.

Gott og vel. Segjum sem svo að við ætlum að halda áfram með þá hugsun að það beri að skoða hvort ekki sé rétt að opna leiðir fyrir sparisjóðina til að taka inn utanaðkomandi fé og með hvaða hætti að verði best gert.

Kostirnir eru þá í aðalatriðum tveir, þ.e. sem ég kalla norsku leiðina, eða B-deildarleið, sparisjóðshlutabréf skilst mér að það sé kallað hér í í greinargerð frv., og svo hins vegar sú sem frv. gengur út á, að opna heimild fyrir sparisjóðina til að breyta sér í hlutafélag eða taka inn nýtt fé í hlutafélag sem taki yfir rekstur sparisjóðanna og eigi þá í framtíðinni á móti þeirri sjálfseignarstofnun sem stofnfjáreigendahluturinn verði gerður að.

B-deildarbréfin, eða norska leiðin, hefur verið farin í Noregi og reyndar víðar og gefist í raun og veru ágætlega, náð þar tilgangi sínum. Þar hefur gengið vel að byggja upp virkan markað með þessi bréf og sparisjóðunum gekk ágætlega að ná til sín auknu fjármagni, þeim sem það vildu og þeim sem létu á það reyna.

Ég sé að í greinargerð eru m.a. efasemdir uppi um að hún mundi ganga hér við íslenskar aðstæður vegna þess að í þeim fáu tilvikum sem ég man reyndar ekki hvort eru miklu fleiri en eitt sem samvinnufélög reyndu að nýta sér þessa leið eftir að heimild til þess var opnuð í lögum fyrir allmörgum árum, þá hafi það ekki skilað miklu. Ég dreg mjög í efa að rétt sé að yfirfæra þá reynslu á sparisjóðina. Við skulum hafa í huga að einmitt á þessum tíma hefur samvinnureksturinn gengið í gegnum miklar þrengingar. Ekki hefur beinlínis blásið byrlega kannski fyrir þá starfsemi að sækja til sín aukið fé á þessum forsendum. Ég tel því að reynsla Kaupfélags Eyfirðinga, og e.t.v. eru einhver fleiri dæmi, af að ná til sín fé í B-deildir samvinnufélaga sé marktæk yfirfæranleg á sparisjóði. Ég leyfi mér að halda hinu gagnstæða fram.

Ég held að það gæti verið ágætis andrúmsloft í kringum það í byggðarlögum þar sem menn eiga öfluga sparisjóði og vilja áframhaldandi standa vörð um þá og vilja hafa þá áfram sjálfstæðar stofnanir í heimabyggð, að bjóða út slík skírteini og markaður fyrir þau yrði fyrst og fremst á heimaslóðum. Sá er munurinn á þessu og hlutafélagaleiðinni að menn telja sig betur varða og tryggari með forræði fyrir stofnun sinni en færa hana yfir í hlutafélag, sem fari á markað og geti fyrr en varir orðið í vaxandi mæli í höndum annarra en þeirra sem hafa staðið á bak við sparisjóðinn í gegnum tíðina og byggt hann upp. Þetta er það viðhorf sem ég heyri. Þess vegna vil ég, herra forseti, færa fram rök fyrir því að þessi leið væri fullt eins álitleg til skoðunar og hlutafélagaleiðin.

Þriðji kosturinn í stöðunni, ef við lítum svo á að sá fyrsti sé að láta þetta vera óbreytt a.m.k. enn um sinn og láta á það reyna hvort frekari þörf en fyrirsjáanleg er eða liggur fyrir nú, banki á dyrnar varðandi það að sparisjóðirnir sæki sér aukið fé út í frá. Kostur númer tvö væri þessi norska leið, B-deilarleið. Kostur númer þrjú sem ég sakna í frv. væri þá að hafa þetta valkvætt, að menn gætu valið á milli einhvers konar B-deildarleiðar og hlutafélagaleiðar.

Ég vil leyfa mér að spyrja hæstv. viðskrh. hvort ekki mætti skoða þann kost að sparisjóðirnir ættu þessa tvo kosti og það væri valkvæður möguleiki í lögunum, að fara hvora leiðina sem menn vildu. Ég sé ekki af hverju það má ekki í sjálfu sér vera alveg eins valkvætt að velja á milli þessara tveggja forma, láta á það reyna t.d. fyrst hvort eftirspurn væri í útboði á B-deildar skírteinum, eiga þá hinn kostinn ef svo reyndist ekki vera. Ég sé ekki af hverju það mætti ekki vera valkvætt eins og það má vera valkvætt samkvæmt frv. að fara yfir í hlutafélagaformið eða ekki. Fjórði möguleikinn væri þá sá sem frv. gengur út á, að opna eingöngu heimild til að breyta þessu yfir í hlutafélag.

Menn kunna að segja að það sé að verða óþarflega flókið og það sé þá svona enn meira á tvist og bast hvaða form menn kunna að velja sér, ef þetta gæti orðið með þrennum hætti, þ.e. óbreyttir sparisjóðir í núverandi mynd, sparisjóðir sem færu B-deildarleiðina og svo þá í þriðja lagi þeir sem færu hlutafjárleiðina. En ég sé ekki mikinn mun á tölunni tveimur eða þremur í þessum efnum og hallast að því að það sem við gerðum skynsamlegast í þessu hvað varðar löggjöfina væri að virða þá grunnhugsun á bak við sparisjóðina sem slíka að þetta eigi að vera sem mest í ákvörðunarvaldi manna sjálfra hvaða leið þeir fara.

Ég get vel fallist á að það sé rétt að menn opni þessa hlutafélagaleið og síðan ráði menn því sjálfir á fundum sínum, samkvæmt þeim reglum sem hér eru settar upp, að tveir þriðju hlutar stofnfjáreigenda hafi það þá í valdi sínu að ákveða breytingarnar. En því skyldu menn ekki líka prófa aðrar leiðir ef þeir telja þær vænlegri og ef þeir telja þær hafa kosti umfram hina hvað það varðar að varðveita hið sérstaka eðli sparisjóðanna? Í raun og veru sér maður ekki beint tilganginn með því að þeir verði til í framtíðinni nema að hann felist í því að þeir fái að vera áfram þessar sérstöku stofnanir og öðruvísi en hefðbundnir bankar með útibúaneti sínu um landið. Ég held að gildi þeirra inn í framtíðina sé fyrst og fremst fólgið í því að þeir fái að halda eðli sínu. Ef þeir fá það ekki mun þess ekki langt að bíða að menn hætti að gera mikinn greinarmun á því hvort útibúið eða stofnunin sem þeir eiga viðskipti við hafi einhvern tímann heitið sparisjóður en sé nú orðin ,,háeffuð`` og komin kannski í meirihlutaeigu eða orðin hluti af stærri keðju.

Við gætum staðið frammi fyrir því að svipaðir hlutir gerðust hér og í Danmörku þar sem tveir stærstu sparisjóðirnir hurfu fljótlega inn í stærri banka eftir hlutafjárvæðingu þeirra og skildu eftir sig mikil skörð í danska sparisjóðanetinu af því það var einu sinni um að ræða tvo langstærstu sparisjóðina með starfsemi á stærstu svæðunum.

Má ég þá heldur biðja um norsku leiðina sem ég tel að hafi gefist þeim vel. Af því ég veit að hæstv. viðskrh. er nú einstakur aðdáandi Noregs og þess sem þaðan kemur þá leyfi ég mér að trúa því að ekki strandi á andúð ráðherra að líta vel til þess fordæmis sem þangað er að sækja.

Að síðustu, herra forseti, vil ég að þessu öllu saman sögðu leyfa mér að fara eindregið fram á það að virðuleg efh.- og viðskn. með stuðningi ráðuneytisins fari rækilega yfir hvort ekki sé ástæða til að skoða vandlega þær leiðir sem þarna virðast koma til greina og bera þær saman og skoða jafnvel hvort eigi að leyfa þessu að vera valkvæðu og halda öllum þessum möguleikum opnum, með það sérstaklega í huga að virða sjálfsákvörðunarrétt þessara stofnana sem er grunnhugsunin á bak við þær og að þær fái að halda eðli sínu og sjálfstæði inn í framtíðina og þjóna þar með áfram þeim tilgangi sem þær hafa gert. Ella óttast ég að við gætum verið að sjá upphafið að þróun sem væri engum til gagns eða góðs, sem sagt þeirri að sparisjóðirnir, fleiri eða færri, hyrfu á komandi árum úr tölu lifenda sem slíkir, yrðu að hlutafélögum og smátt og smátt í meirihlutaeigu hluthafa en ekki sjálfseignarstofnunarinnar og rynnu þá saman í stærri heildir eða inn í aðra banka og glötuðu þannig sérstöðu sinni og sérkennum og um leið því sem hefur gert þá að því sem þeir hafa verið og skýrir þær vinsældir og þá velgengni sem þeir hafa notið.