Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 17:29:53 (5983)

2001-03-26 17:29:53# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[17:29]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram. Ég er, ef þannig má að orði komast, í aðdáendaklúbbi sparisjóðanna. Ég tel þá mikilvæga í smærri byggðarlögum um allt land og reyndar alls staðar á landinu. Þetta er hentugt form og þeir hafa gert góða hluti.

Í upphafi, þegar hæstv. viðskrh. mælti fyrir málinu, hélt ég að málið væri þannig að það þyrfti ekki að deila um það. Ég verð að segja eins og er, að meðan ég hlustaði á ræðu hv. þm. gat ég ekki með nokkru móti komist að niðurstöðu um það hvort hv. þm. styddi þetta frv. eða ekki. Með öðrum orðum: Ég hélt að hér á hinu háa Alþingi mundi skapast samstaða um að fara þessa leið til að auðvelda sparisjóðunum rekstrarform sitt á komandi árum og gefa þeim færi á að standa jafnfætis öðrum peningastofnunum í landinu á þeim erfiðu tímum sem ríkja á peningamarkaði í dag.