Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 18:10:26 (5989)

2001-03-26 18:10:26# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[18:10]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eignarhald sem er þarna á ferðinni er eins og að hafa óvirkt eigið fé inni í fyrirtæki og það er notalegt að eiga kannski 15% í fyrirtæki og hafa ráðin yfir hinu öllu saman. Ég ber fram þá spurningu: Kæmi til mála til að aflétta þessu ástandi að setja inn í frv. einhvers konar skyldu til sölu á þessum hlutum þannig að á einhverju tilteknu tímabili verði þeir seldir? Það mun auðvitað ekki skaða fyrirtækið sem slíkt. Það munu bara einhverjir aðrir eignast hlutaféð og að setja reglur um hvernig skuli staðið að þessari sölu.