Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 18:18:49 (5995)

2001-03-26 18:18:49# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[18:18]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég hef út af fyrir sig ekki athugasemdir við sjónarmið hv. þm. Péturs H. Blöndals, þess efnis að varast beri stofnun sjálfseignarstofnana sem fari með það sem hann kallar ,,fé án hirðis``. Ég verð hins vegar að gera athugsemdir við þau rök sem hann færir fram máli sínu til stuðnings og sérstaklega að hv. þm. leyfi sér að álykta hér í þingsölum að þeir sem væntanlega muni fara með stjórn sjálfseignarstofnana af því tagi sem hér um ræðir muni mjög líklega, eins og hann orðar það, láta ráða þar annarleg sjónarmið, t.d. til að hlúa að eigin ábata eða mismuna fyrirtækjum, félögum og fólki í samfélaginu.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að ég er vel kunnugur starfi sparisjóðanna þar sem ég hef búið nokkuð lengi en ég hef ekki orðið var við slíkt. Ég vil spyrja hv. þm. hvað hann hefur fyrir sér í þessu.