Viðskiptabankar og sparisjóðir

Mánudaginn 26. mars 2001, kl. 18:20:03 (5996)

2001-03-26 18:20:03# 126. lþ. 97.2 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 97. fundur, 126. lþ.

[18:20]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Það sem ég hef fyrir mér er uppbyggingin á þessu frv., þ.e. það sem gerast mun þegar kemur að hlutafjárvæðingunni og valdið vegna framsalsheimildarinnar er komið til stjórnarinnar. Hún ein hefur heimild til að leyfa framsal og framsalið verður það sem skiptir máli, sérstaklega fyrir stofnfundinn. Hverjir verða í þessum ævarandi hópi sem ræður eigin fé sjálfseignarstofnunarinnar? Það er þetta sem ég óttast vegna þess að við erum ekki að tala um einhverja smáaura eða litla hagsmuni. Við erum að tala um mjög mikla hagsmuni. Við erum að tala um 10--15 milljarða yfir landið allt.

Þetta eru 25 sparisjóðir og ég get vel ímyndað mér að það verði töluvert mikill slagur um þessa hagsmuni. Þannig er það alltaf. Hins vegar getur vel verið að fólkið í sparisjóðunum sé svo gott og gegnt, og ég þekki það í raun ekki að öðru, að það ráði við þennan vanda og leysi hann vel og af sanngirni þannig að enginn telji hagsmuni sína fyrir borð borna. Hættan á því er hins vegar mikil. Það sem ég er að reyna að átta mig á er hvað gerist með þessar sjálfseignarstofnanir. Hvernig verða reglurnar um inntöku nýrra stofnfjáreigenda inn í hópinn? Hver ákveður þær reglur? Hvað gerist ef einn stofnfjáreigandinn fellur frá? Þetta er allt óleyst.

Þarna eru miklir hagsmunir og það er þekkt að þegar menn hafa mikil völd þá koma oft og tíðum upp annarleg sjónarmið.