Vændi á Íslandi

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 13:43:33 (6001)

2001-03-27 13:43:33# 126. lþ. 98.94 fundur 423#B vændi á Íslandi# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 126. lþ.

[13:43]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil þakka hv. málshefjanda fyrir að hefja máls á þessu máli utan dagskrár og þakka hæstv. dómsmrh. þá yfirlýsingu sem hún hefur gefið að nú skuli stofnun nefndar vera á næsta leiti. Ég sé ekki annað en verið sé að taka þannig á málum að vel megi fagna.

Hæstv. ráðherra gat um það í utandagskrárumræðu í fyrra að um það væri sterkur orðrómur sem gengi fjöllunum hærra að í tengslum við skemmtistaði í borginni sem byðu upp á nektarsýningar væri stundað vændi. Nú hefur hæstv. ráðherra fengið staðfestingu á því að orðrómurinn sem hún kallaði svo í fyrra á við rök að styðjast og ekki einasta að tilviljanakennt vændi sé stundað á götum borgarinnar í samfélagi okkar heldur líka að skipulegt vændi sé stundað í tengslum við nektarstaðina. Þess vegna má kannski gera athugasemd við orð hæstv. ráðherra þegar hún sagði áðan að kanna þyrfti hvort ástæða sé til að setja reglur um starfsemi staðanna. Mér sýnist skýrslan leiða það í ljós að full þörf sé á því að strangar reglur séu settar og kafað verði verulega djúpt ofan í þessi mál. Einnig má spyrja, herra forseti, í þessu sambandi hvernig standi á því að lögreglunni hafi ekki tekist að koma fram með jafnafgerandi niðurstöður í gegnum starf sitt í undirheimum Reykjavíkurborgar og skýrsluhöfundum tekst í þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir.

Skýrslan lýsir ófögrum heimi en hún lýsir veruleika samborgara okkar og það er skylda okkar að bregðast við. Bæði þarf að koma böndum á þá starfsemi sem er farvegur fyrir vændi og ekki síður er mikilvægt að koma til hjálpar þeim ógæfusömu einstaklingum sem vegna aðstæðna sinna hafa gripið til þeirra örþrifaráða að selja sig. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hefur eins og þingheimi er kunnugt lagt fram frv. til laga um að farin sé hin sænska leið sem nefnd hefur verið. Ég treysti á hæstv. dómsmrh. og aðra hv. þm. að við látum ekki þetta þing líða án þess að við tökum um það róttækar ákvarðanir hver séu næstu skref. Ég fagna þeirri nefndarstofnun sem hæstv. ráðherra gat um áðan því að nú ríður á að sýna þann dug sem þarf til að styðja þá til sjálfshjálpar sem hingað til hafa verið fórnarlömb melludólga og ofbeldismanna.