Vændi á Íslandi

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 13:48:19 (6003)

2001-03-27 13:48:19# 126. lþ. 98.94 fundur 423#B vændi á Íslandi# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 126. lþ.

[13:48]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þessa skýrslu um vændi sem hefur fært okkur sönnur á að á Íslandi viðgangist vændi í öllum sínum ömurlegustu birtingarmyndum. Ég held að hjá því verði ekki komist nú þegar niðurstöður liggja fyrir að þjóðfélagið bregðist við af myndarskap og gripið verði til ráðstafana sem takmarka þann sálarháska, þá mannlegu niðurlægingu sem þeir einstaklingar verða fyrir sem oftast af einhvers konar nauð fara út í vændi.

Svo þarf að beina sjónum að þeim sem kaupa þjónustu vændiskarla og kvenna og fylgjast vel með því hvaða áhrif ný lagasetning í Svíþjóð, sem gerir refsivert að kaupa slíka þjónustu, hefur á þróunina. Síðast en ekki síst þurfum við, hæstv. forseti, að beina athyglinni að þeim atriðum í samfélagi okkar sem gera jarðveginn frjóan fyrir afbrigðilegar hugmyndir um kynlíf og æsa fólk til dáða á þeim refilstigum. Þar á ég við kynlífsiðnaðinn sem hefur náð að blómstra hér á landi svo með ólíkindum er á undanförnum árum. Hér er opinberlega auglýst símaklám og Landssíminn innheimtir fyrir þjónustuna sem er ekki síst notuð af óhörðnuðum unglingum í heimilissímanum. Hér geta unglingar fengið án mikillar fyrirhafnar aðgang að hörðu klámi á myndbandaleigum bæjarins, unglingar í framhaldsskólum leigja sér nektardansara til að koma fram á skemmtikvöldum, súludansstaðir hafa sprottið upp eins og gorkúlur á haug og hugtakaruglingur, eins og að slíkt beri vott um frelsi, veður uppi. Ég skora á hæstv. dómsmrh. að láta ekki deigan síga í baráttunni við klámiðnaðinn á Íslandi.