Vændi á Íslandi

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 13:56:46 (6007)

2001-03-27 13:56:46# 126. lþ. 98.94 fundur 423#B vændi á Íslandi# (umræður utan dagskrár), SoG
[prenta uppsett í dálka] 98. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Soffía Gísladóttir:

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hæstv. dómsmrh. fyrir þá skýrslu sem hér um ræðir, um vændi á Íslandi og félagslegt umhverfi þess. Þetta er mjög sláandi skýrsla og þá sérstaklega hvað snertir barnavændi að því er mér finnst.

Í desember sl. kom einnig út skýrsla af hálfu hæstv. dómsmrh. sem fjallar um samanburð á lagaumhverfi á Norðurlöndum hvað varðar m.a. vændi. Hér hefur verið staðið mjög faglega að verki og skynsamlega tekið á málum því að ekki duga upphrópanir og fjaðrafok. Skýrslur þessar marka upphaf upplýstrar umræðu um málefnið og verða vonandi til þess að markviss meðhöndlun og sérþekking á viðfangsefninu aukist hér á landi.

Herra forseti. Ég kýs að leggja áherslu á það sem mér finnst brýnast í umræðunni en það er tvennt. Annars vegar að vernda börnin okkar gegn vændinu og hins vegar að aðstoða einstaklinga til að komast út úr því. Tryggja þarf réttarvernd barna og ungmenna og fyrirbyggja að þau leiðist út í eða séu leidd út í vændi. Í dag mælir hæstv. félmrh. fyrir frv. til barnaverndarlaga og er það einn liður í að tryggja vernd barna og ungmenna. Á Íslandi er kynferðislegur lögaldur 14 ár, þ.e. fermingarbörnin. Er ekki annar liður í því að tryggja réttarvernd barna að hækka þessi aldursmörk upp í 16 ár? Ég spyr.

Eins og kom fram í máli hæstv. dómsmrh. er ekki sérsniðin þjónusta hér á landi fyrir einstaklinga sem vilja komast út úr vændi. Þessir einstaklingar leita nú í stofnanir eins og félagsþjónustu, heilbrigðisþjónustu og meðferðarstofnanir. Umræðan um vændi hér á landi hefur til þessa einkennst af öfgakenndum viðhorfum í báðar áttir en nú er lag að taka faglega á málefninu, nýta sér þá þekkingu sem er nú þegar til staðar og fá einstaklinga og stofnanir í samvinnu um að aðstoða þá sem kjósa að skilja við vændið og taka upp aðra lífshætti.

Herra forseti. Ekki er lengur um upphrópanir og fjaðrafok að ræða heldur markar þessi áfangaskýrsla upphaf upplýstra aðgerða um þetta viðkvæma mál, vændi.