Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 14:41:08 (6020)

2001-03-27 14:41:08# 126. lþ. 99.1 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., Frsm. meiri hluta HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[14:41]

Frsm. meiri hluta iðnn. (Hjálmar Árnason):

Herra forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta iðnn. um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 80/1966, um kísilgúrverksmiðju við Mývatn, með síðari breytingum.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið ýmsa gesti á sinn fund eins og fram kemur í nál. á þskj. 953.

Frv. fjallar um að ríkissjóði verði veitt heimild til að selja 51% eignarhlut sinn í kísilgúrverksmiðjunni. Áætlað söluandvirði er um 62 millj. kr. og gert er ráð fyrir að þeir fjármunir renni til atvinnuuppbyggingar á svæðinu.

Ástæður að baki þessu eru ýmsar, m.a. þær að fyrir liggur að mikill kostnaður verður við breytingar á verksmiðjunni, markaðsverð hefur lækkað en launaliður hækkað verulega. Hins vegar hefur borist tilboð um kaup á þessum hluta ríkisins frá nýjum aðilum sem hafa áætlanir um að halda áfram óbreyttum rekstri næstu árin en stefna að framleiðslu á nýrri framleiðsluvöru, kísildufti, sem er ætlað að fara inn á nýjan og annan markað.

Ég tel ekki ástæðu, herra forseti, til að orðlengja mikið um þetta. Málið fékk ágæta umfjöllun í nefndinni sem og við 1. umr. en meiri hluti iðnn. leggur til að frv. verði samþykkt.

Undir nál. rita auk þess sem hér stendur hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, Drífa Hjartardóttir, Árni Ragnar Árnason, Ísólfur Gylfi Pálmason og Svanfríður Jónasdóttir og Pétur Blöndal með fyrirvara.