Kísilgúrverksmiðja við Mývatn

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 14:50:26 (6024)

2001-03-27 14:50:26# 126. lþ. 99.1 fundur 510. mál: #A kísilgúrverksmiðja við Mývatn# (sala á eignarhlut ríkisins) frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Eins og fram kemur í nál. sem hér liggur fyrir frá meiri hluta iðnn. skrifa fulltrúar Samfylkingarinnar undir það. Við erum í fyrsta lagi sammála því að hluti ríkisins, þessi 51% séu seld, og í öðru lagi erum við fulltrúar Samfylkingarinnar sáttar við að Kísilgúrsjóður sé til áfram.

Svo ég fari aðeins yfir sjóðinn, herra forseti, þá hefur hlutverk hans verið að kosta undirbúning aðgerða til að efla atvinnulíf í þeim sveitarfélögum sem eiga verulegra hagsmuna að gæta varðandi starfsemi Kísiliðjunnar. Ef það er skoðað hvernig fjármunir sjóðsins hafa nýst sýnist mér að þarna sé um að ræða sjóð sem getur gagnast litlum fyrirtækjum afskaplega vel eða aðilum með hugmyndir sem erfitt væri að fjármagna hvort sem væri í bankakerfi eða í öðrum þeim sjóðum sem atvinnulífinu standa til boða. Benda má á, herra forseti, að því ráðstöfunarfé sem sjóðurinn hefur, sem er í fyrsta lagi 20% af námagjaldi kísilgúrverksmiðjunnar árið 2001 og síðan 68% af námagjaldi verksmiðjunnar frá og með árinu 2002 þar til kísilgúrvinnslu er hætt, má jafna við eins konar auðlindagjald sem þarna er greitt vegna þeirrar sameiginlegu auðlindar sem botngúrinn í vatninu er. Þó að þeir sem eru talsmenn þess að greitt sé fyrir aðgang að sameiginlegum auðlindum mundu hugsanlega vilja horfa til greiðslu af þessu tagi í víðara samhengi þá finnst mér að hér sé mjór mikils vísir, og við styðjum það að þetta námagjald fari áfram í þann farveg sem það hefur verið í, þ.e. í Kísilgúrsjóðinn sem fjármagni ýmsa þá starfsemi sem má verða Mývatnssveit og starfssvæði verksmiðjunnar til nokkurs framdráttar.

Herra forseti. Ég vil gjarnan líka nefna fjórða liðinn þar sem segir ,,aðrar tekjur``. Nú kann allt eins svo að fara að þær 62 millj. sem koma inn fyrir söluna á hlut ríkisins verði þessar aðrar tekjur sem þarna koma inn í sjóðinn, þ.e. fjórði liðurinn verði þá býsna gildur, og þá erum við auðvitað að tala um enn myndarlegri sjóð en þann sem hv. þm. Pétur H. Blöndal vill slá af.

Ég vil einnig nefna, herra forseti, að ýmis verkefni í Mývatnssveit tengjast framtíðarhagsmunum sveitarinnar, ekki síst á sviði ferðamála, sem er mikilvægt að hægt sé að fjármagna og þá ekki síst í takti við áhuga heimamanna. Ég vil t.d. nefna, herra forseti, að við erum aðilar að Ramsarsamningnum og verið er að vinna verndaráætlun fyrir Mývatn sem menn eru sammála um að er afskaplega merkilegt og einstakt að mörgu leyti. Mér sýnist að vel mundi fara á því að einhverju af þessu fjármagni yrði varið til að flýta þessari verndaráætlun. Ég held að það skipti máli, herra forseti, að menn fari með þeim hætti í hlutina.

Það er líka kappsmál að við Mývatn geti verið landvarsla allt árið. Þar er áhersla sem ekki væri óeðlilegt að litið yrði til vegna þess að það er auðvitað hluti af ferðamannaumhverfi Mývatns. Sömuleiðis hafa menn nokkuð rætt um rannsóknastöðina við Mývatn og sakna þess að hún skuli ekki geta verið eða hafa verið með öflugri starfsemi en verið hefur. Mér sýnist, herra forseti, að í slíkum sjóði ættu að vera möguleikar til þess að efla rannsóknastöðina, efla það starf sem þar er unnið. En allt þetta gæti verið liður í því bæði að draga að fleira fólk með þekkingu og einnig í að efla möguleika svæðisins til að taka skipulega á móti ferðamönnum. En það eru víða vandamál á viðkvæmum en eftirsóttum stöðum á Íslandi, eftirsóttum til skoðunar og ferðalaga. Okkur hefur ekki auðnast að búa þeim þannig umgjörð að þeir geti með góðu móti tekið á móti öllum þeim sem þangað vilja koma og auðvitað er mikilvægt að það sé hægt við Mývatn, og að aðstæður þar, fræðsla og upplýsingar séu með þeim hætti að sómi sé að.

Þetta vildi ég, herra forseti, segja um frv. sem hér liggur fyrir. Samþykki fulltrúa Samfylkingarinnar við þeim ákvæðum sem hér skipta máli, þ.e. 1. og 2. gr. frv., liggur fyrir samkvæmt því nál. sem hér var verið að mæla fyrir og ég hef nú áréttað.