Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 15:06:42 (6028)

2001-03-27 15:06:42# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[15:06]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til endurskoðaðra barnaverndarlaga. Þetta mál hefur hlotið mjög vandaðan undirbúning undir forustu Davíðs Þórs Björgvinssonar prófessors. Með honum unnu að þessu endurskoðunarstarfi Benedikt Bogason skrifstofustjóri, Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, Guðrún Erna Hreiðarsdóttir, forstöðumaður barnaverndarráðs, Hjördís Hjartardóttir félagsmálastjóri, Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur, Ingibjörg Broddadóttir deildarstjóri og Þorgerður Benediktsdóttir deildarstjóri. Guðrún Erna baðst lausnar frá skipun í nefndina og í hennar stað kom Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari og formaður barnaverndarráðs. Um tíma starfaði einnig hv. þm. Guðrún Ögmundsdóttir með nefndinni og einnig Halla Backman Ólafsdóttir lögfræðingur.

Helstu nýmælin í þessu frv. eru að leitast er við að draga saman þær meginreglur sem leggja ber til grundvallar í öllu barnaverndarstarfi og mikilvægt þykir að kveðið sé á um í sjálfum lagatextanum. Með þessu er lögð áhersla á réttindi barna og önnur þau grundvallarsjónarmið sem barnaverndaryfirvöldum ber að hafa að leiðarljósi í störfum sínum. Reglur þessar hafa lengi verið viðurkenndar sem grundvallarreglur í barnaverndarstarfi.

Lagt er til að sett verði á fót kærunefnd barnaverndarmála. Í því felst m.a. að barnaverndarráð í þeirri mynd sem nú er verði lagt niður. Þessi breyting helst í hendur við þá fyrirætlan að um forsjársviptingarmál og önnur mál sem fela í sér hliðstæða skerðingu réttinda verði fjallað fyrir dómi. Til kærunefndar barnaverndarmála verði unnt að skjóta úrskurðum barnaverndarnefnda og stjórnvaldsákvörðunum Barnaverndarstofu. Hlutverk kærunefndar er skilgreint í 6. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir að félmrh. skipi kærunefnd barnaverndarmála til fjögurra ára í senn. Úrskurðum nefndarinnar er ætlað að vera endanlegir á stjórnsýslustigi og verður þeim ekki skotið til ráðherra eða annars æðra stjórnvalds.

Gert er ráð fyrir að sveitarstjórn skuli fyrir hvert kjörtímabil gera framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar innan sveitarfélagsins.

Lagt er til að efla barnaverndarumdæmin þannig að á bak við hverja barnaverndarnefnd séu ekki færri en 1.500 íbúar. Gert er ráð fyrir að félmrh. verði fengnar tilteknar heimildir til að hlutast til um að barnaverndarnefndir sem fullnægja skilyrðum laganna verði settar á fót. Er þess vænst að ákvæði þessi leiði til stækkunar barnaverndarumdæma og styrki barnaverndarstarf á vegum sveitarfélaga.

Breyting er gerð á upphafi barnaverndarmáls. Leitast er við að gera þau ákvæði skýrari en er í gildandi lögum. Það er gerður skýr greinarmunur á þeirri ákvörðun barnaverndarnefndar að hefja rannsókn máls og á öðrum ákvörðunum sem nefndin tekur. Þá er nefndinni settur sjö daga frestur til að taka slíka ákvörðun eftir að henni berst tilkynning. Ákvörðun um að hefja rannsókn er ekki kæranleg til kærunefndar barnaverndarmála eða annars stjórnvalds, enda er hér aðeins um að ræða ákvörðun um málsmeðferð en ekki eiginlega stjórnsýsluákvörðun.

Þá er fjallað um ráðstafanir barnaverndarnefnda. Það eru lagðar til róttækar breytingar á framsetningu þeirra ákvæða og flokkun ráðstafana og þau borin saman við hliðstæð ákvæði í gildandi lögum. Nefndin vill að með þessu verði ákvæðin skýrari en í gildandi lögum og auðveldara að fara eftir þeim. Það er gerð grein fyrir nokkrum mikilvægustu efnisbreytingunum en að öðru leyti vísast til athugasemda við VI. og VII. kafla.

Gert ráð fyrir því nýmæli að barnaverndarnefnd geti hafið rannsókn máls vegna tilkynningar sem varðar þungaðar konur og er að finna ákvæði um möguleg úrræði barnaverndarnefndar í slíkum tilfellum. Þar kemur fram að ef rannsókn barnaverndarnefndar leiðir í ljós að þunguð kona kunni að stofna eigin heilsu eða lífi og ófædds barns síns í hættu með líferni sínu skuli barnaverndarnefnd beita úrræðum skv. VI. kafla eftir því sem við á í samráði við hina þunguðu konu og eftir atvikum gegn vilja hennar í samráði við lögráðamann hennar ef hún hefur ekki náð lögræðisaldri, allt eftir því sem við getur átt. Barnaverndarnefnd getur sett fram kröfu um sviptingu lögræðis samkvæmt ákvæðum lögræðislaga í því skyni að koma konunni til aðhlynningar og meðferðar á viðeigandi stofnun. Rökin að baki slíkri heimild eru næsta augljós.

Það er gert ráð fyrir því að Barnaverndarstofa skuli eiga rétt á upplýsingum úr sakaskrá um menn sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga ef brot hefur beinst gegn einstaklingi yngri en 18 ára. Hér er um að ræða kynferðisbrot og önnur brot gegn börnum. Gert er ráð fyrir að ríkissaksóknara verði gert skylt að láta stofunni í té afrit dóma ef hún óskar þess. Barnaverndarstofa getur jafnframt tilkynnt viðkomandi barnaverndarnefnd flytji slíkur maður í umdæmi hennar. Þá er í 2. mgr. 36. gr. tekið fram að óheimilt sé að ráða til starfa hjá barnaverndaryfirvöldum eða öðrum stofnunum sem sinna barnaverndarstarfi, hvort sem þær eru reknar af einkaaðilum, ríki eða sveitarfélögum, menn sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn framangreindum ákvæðum hegningarlaga. Í lokamálsgreininni er jafnframt gert ráð fyrir að yfirmenn skóla, leikskóla, sumardvalarheimila, íþrótta- og tómstundamiðstöðva og annarra slíkra stofnana eða staða þar sem börn koma saman eða dveljast um lengri eða skemmri tíma eigi rétt á upplýsingum úr sakaskrá um það hvort tiltekinn maður, sem sótt hefur um störf á þeirra vegum, hefur hlotið dóm á grundvelli þeirra ákvæða sem talin eru í 2. mgr. Markmiðið með þessum ákvæðum er að stemma stigu við því að menn sem hlotið hafa dóma vegna brots á nefndum ákvæðum ráðist til starfa með börnum og á stofnunum og öðrum stöðum þar sem börn eru og dveljast um lengri eða skemmri tíma.

Þá er mikilvægt nýmæli að úrskurðarvald í málum vegna sviptingar forsjár flyst frá barnaverndarnefndum til dómstóla. Þá er einnig gert ráð fyrir atbeina dómstóla í eftirtöldum tilvikum:

1. Ef foreldrar geta borið undir dómara ákvörðun barnaverndarnefndar um breytingu vistunar í allt að tvo mánuði.

2. Barnaverndarnefnd skal þá leita úrskurðar héraðsdómara til að koma fram ráðstöfunum eigi þær að standa lengur en tvo mánuði.

3. Foreldrar geta gert kröfu fyrir dómi um endurskoðun varanlegrar ráðstöfunar á barni og endurskoðun fyrri ákvarðana.

[15:15]

Í frv. eru ítarlegri reglur um meðferð mála fyrir barnaverndarnefndum en í gildandi lögum, sbr. VIII. kafla. Þá eru einnig lagðar til sérstakar reglur um málsmeðferð fyrir kærunefnd barnaverndarmála.

Þá er fjallað um málsmeðferð fyrir dómi. Þau ákvæði eru að öllu leyti nýmæli, enda hefur ekki fyrr í íslenskum lögum sérstaklega verið gert ráð fyrir því að barnaverndarmál væru rekin fyrir dómi.

Í málsmeðferðarreglum frv. er gert ráð fyrir að barn sem hefur náð 15 ára aldri sé aðili barnaverndarmáls og það er mikilvægt nýmæli sem á að stuðla að því að treysta réttarstöðu barna í barnaverndarmálum. Með þessum hætti fær barn sem náð hefur þessum aldri óskoraðan rétt til að tjá sig um mál á sama hátt og foreldrar þess. Það hefur sjálfstæðan aðgang að öllum gögnum málsins og getur átt rétt á aðstoð lögmanns, auk þess sem heimilt er að skipa því talsmann með sömu skilmálum sem gilda um yngri börn. Þetta er svipað og gert hefur verið í öðrum ríkjum Norðurlanda, t.d. í Noregi.

Þá eru í frv. ný ákvæði um fóstur, að það verði skilgreint með öðrum hætti en í gildandi lögum. Með fóstri er í frv. átt við að barnaverndarnefnd feli sérstökum fósturforeldrum umsjá barna í a.m.k. þrjá mánuði en samkvæmt núgildandi lögum hefur verið miðað við a.m.k. sex mánuði og að um skemmri vistun fari skv. 4. mgr. 51. gr. Af þessari breytingu leiðir m.a. að hugtakið ,,varanlegt fóstur`` er ekki lengur notað, þótt enn þá sé gert ráð fyrir að fóstur geti staðið þar til barn verður lögráða. Í frumvarpinu eru einnig ítarlegri og skýrari reglur um fóstur en nú gilda.

Vert er að vekja athygli á ákvæði um réttindi barna á meðferðarheimilum og stofnunum. Með þessu nýmæli er leitast við að setja laga ramma um beitingu þvingunarráðstafana inni á öllum heimilum og stofnunum sem rekin eru á grundvelli laganna. Ákvæðið sem hér er gerð tillaga um er í samræmi við ábendingar sem fram koma í greinargerð um þvingunarráðstafanir á meðferðarheimilum ríkisins fyrir unglinga og eftirlitsskyldur barnaverndaryfirvalda frá því í maí 1998. Í þessu sambandi er þó vert að nefna að Barnaverndarstofa setti þegar á árinu 1997 fyrst reglur um þetta efni. Ákvæði frv. veitir þeim reglum trausta lagastoð.

Síðast en ekki síst eru almenn verndarákvæði um þátttöku barna í fyrirsætu- og fegurðarsamkeppnum. Lagt er til að skipuleggjendum og ábyrgðaraðilum fyrirsætu- og fegurðarsamkeppni og annarrar keppni af því tagi, þar sem þátttakendur eru yngri en 18 ára, sé skylt að tilkynna um keppnina til Barnaverndarstofu. Jafnframt er gert ráð fyrir að ráðherra geti sett með reglugerð nánari reglur, að fengnum tillögum Barnaverndarstofu, um þátttöku barna í slíkri keppni, svo sem um samþykki foreldra o.fl. Þá er í frv. tekið fram að börnum yngri en 18 ára skuli óheimilt að taka þátt í nektarsýningum eða öðrum sýningum af kynferðislegum toga. Jafnframt bera skipuleggjendur eða ábyrgðaraðilar slíkra sýninga ábyrgð á því að aldursmörkin séu virt.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni umræðu um þetta mál verði frv. vísað til hv. félmn.