Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 15:39:56 (6030)

2001-03-27 15:39:56# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., DrH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[15:39]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Við erum að ræða frv. til barnaverndarlaga sem ég tel vera mjög vandað og hefur verið vel að verki staðið. Mig langar aðeins að koma inn á nokkur atriði.

Markmið laganna eru þau að börn eiga rétt á vernd og umönnun. Þau skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska og foreldrum ber að sýna barni sínu umhyggju og nærfærni og gegna forsjár- og uppeldisskyldu við börn sín svo sem best hentar hag og þörfum þeirra. Meginregla í öllu barnaverndarstarfi er að beita þeim ráðstöfunum sem ætla má að barni séu fyrir bestu. Mjög mikilvægt er að hagsmunir barna séu ávallt hafðir í fyrirrúmi í starfsemi barnaverndaryfirvalda. Það er líka mjög mikilvægt að stöðugleiki ríki í uppvexti barna og þau eigi þess kost að alast upp í öruggu og örvandi umhverfi.

Börn og unglingar, 18 ára og yngri, eru fjölmennasti aldurshópur í íslensku samfélagi og er mun hærra hlutfall en í öðrum nágrannalöndum okkar. Því er enn nauðsynlegra fyrir okkur Íslendinga að búa vel í haginn fyrir þennan aldurshóp. Framtíð barns byggir í raun á fortíð þess og það að skapa börnum góð lífsskilyrði í æsku og á unglingsárum er arðbær fjárfesting þegar til lengri tíma er litið. Og eins og gamalt máltæki segir: Lengi býr að fyrstu gerð.

Í 10. gr. frumvarpsins er rætt um barnaverndarnefndir. Nýmæli er að samanlagður íbúafjöldi sveitarfélaga að baki hverri barnaverndarnefnd skuli ekki vera undir 1.500. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt nýmæli. Barnaverndarnefndum hefur fækkað með hverju árinu, en heildarfjöldi þeirra var alls 56 í árslok 1999. Í sveitarfélögum með undir 100 íbúum voru fjórar barnaverndarnefndir, í sveitarfélögum þar sem íbúar voru 100--500 voru þær sex, í sveitarfélögum með 500--1.000 íbúa voru þær níu og í sveitarfélögum með 1.000--2.000 íbúa voru 15 barnaverndarnefndir. Þannig mætti lengi telja. Ég tel að þetta sé mjög mikilvægt til að hægt sé að vinna að þessum málum á heildrænan og farsælan hátt.

Í 12. gr. er almennt um hlutverk barnaverndarnefnda. Ég vil taka undir með hv. þm. Guðrúnu Ögmundsdóttur að mjög mikilvægt er að litið sé til forvarna og fræðslu í þeim kafla.

Eins tel ég mjög mikilvægt það sem kemur fram í 14. gr., þ.e. um starfslið barnaverndarnefnda þar sem er gert skylt að barnaverndarnefnd skuli ráða sérhæft starfslið eða tryggja sér aðgang að viðeigandi sérþekkingu með öðrum hætti. Ég held að þá sé einmitt þetta 1.500 íbúa bakland nauðsynlegt.

Þá er einnig heimilt fyrir barnaverndarnefnd að semja við stofnanir, svo sem á sviði félags-, skóla- og heilbrigðisþjónustu um sameiginlegt starfsmannahald og sérfræðiþjónustu. Þá má í þessu tilliti benda á lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga þar sem einmitt er hægt að samþætta starfsmannahald og sérfræðiþjónustu.

Mér finnst einnig mjög mikilvægt það sem kemur fram í 15. gr. að ef barn flyst úr umdæmi nefndar á meðan hún hefur mál þess til meðferðar skal barnaverndarnefnd í umdæmi sem barn flytur í taka við meðferð þess og barnaverndarnefnd sem hefur mál til meðferðar skal tilkynna flutninginn til nefndar í viðkomandi umdæmi. Jafnframt ber að upplýsa viðtakandi barnaverndarnefnd um öll afskipti af málefnum barnsins og láta henni í té gögn þess. Ég tel að þetta sé afar mikilvægt atriði.

Ef barnaverndarnefnd hefur ráðstafað barni í fóstur eða í vistun í annað umdæmi fer hún áfram með málið. Hún getur þó farið þess á leit að barnaverndarnefnd í dvalarumdæmi barns beri tilteknar skyldur. Þetta tel ég líka afar mikilvægt.

[15:45]

Varðandi 21. gr. frv. um það ef barnaverndarnefnd fær tilkynningu eða vitneskju með öðrum hætti um að þunguð kona kunni að stofna heilsu eða lífi ófædds barns síns í hættu með líferni sínu, t.d. með áfengis- og fíkniefnaneyslu, geti barnaverndarnefnd ákveðið að hefja könnun á málinu. Ég tel að þarna séum við komin á svolítið grátt svæði. Það sem einum finnst vera að stofna ófæddu barni í hættu getur öðrum þótt vera í lagi. Þá spyr maður sig hvort það geti átt við ef einhver telur það t.d. um konu sem reykir, það eru talin óæskileg áhrif á ófætt barn. Svo mætti lengi telja. Ég held að þetta geti jafnvel komið í veg fyrir að kona fari í eftirlit og þá sé ekki eins vel hægt að fylgjast með henni. Það er svo margt sem hægt er að fella undir þetta þegar þetta er svona opið. Að stofna heilsu og lífi ófædds barns síns í hættu með líferni sínu getur jafnvel líka átt við atvinnu og hvernig aðbúnaður er á vinnustöðum. Og hvað með fóstureyðingar? Ég bara spyr. Getur það átt við um það? Sviptingu lögræðis tel ég vera mjög alvarlegt mál og ég held að það þurfi svolítið að skoða þennan kafla upp á nýtt.

Mér finnst mjög mikilvægt í 24. gr. frv. úrræði með samþykki foreldra, þar er mikilvægt leiðbeiningarstarf, bæði um að leiðbeina foreldrum um uppeldi og aðbúnað barns, það hefur ekki verið áður, að stuðla að því í samvinnu við hlutaðeigandi stofnanir að beitt verði úrræðum samkvæmt öðrum lögum og að útvega barni viðeigandi stuðning eða meðferð. Ég tel allt þetta vera mjög mikilvægt.

Herra forseti. Við höfum gott tækifæri í félmn. til að fara ítarlega yfir þetta frv. en ég fagna því að það skuli vera fram komið og ég veit að það mun fá góða yfirferð í félmn.