Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 16:32:21 (6035)

2001-03-27 16:32:21# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., SoG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[16:32]

Soffía Gísladóttir (andsvar):

Herra forseti. Þetta er mjög góð umræða. Þetta er mjög merkileg umræða um þungaðar konur og ég get verið sammála hv. þm. Rannveigu Guðmundsdóttur í því sem hún sagði. Ég starfa sem starfsmaður barnaverndarnefndar og ég spurði sjálfa mig þegar ég sá þessa grein hvort það væri gott fyrir okkur að hafa þessa grein þarna inni því að vissulega höfum við haft afskipti af þunguðum konum í starfi okkar.

Það sem ég spyr mig hins vegar að er hvort við þurfum að hafa sérstaka grein. Hv. þm. tekur dæmi af ófrískri konu sem barnaverndarnefnd er að skoða mál hjá vegna afskipta af öðrum börnum hennar þá er það vissulega tekið í samhengi. Við fjöllum um fjölskylduna í heild sinni eins og hún er ef við erum að skoða barnaverndarmálin.

En það sem stingur mig helst er það hvort við þurfum að hafa sérstaka lagagrein í frv. um þennan ákveðna hóp ófrískra kvenna. Þá er ég að hugsa um allar þær ófrísku konur sem eru úti í samfélaginu í dag og eins og Drífa Hjartardóttir, 4. þm. Suðurl., sagði hér áðan, eru skoðanir fólks á hvað sé skaðlegt fyrir barnið svo misjafnar. Maður spyr sig: Komum við til með að fá tilkynningar um konur sem eru kannski á gráu svæði með neyslu sína, með störf sín eða lífshætti? Það þýðir að barnaverndarnefnd verður að taka málið til skoðunar og þá er mál konunnar komið inn á borð til okkar og það er mjög viðkvæmt.

Ég set því spurningarmerki við þessa grein og ég vil gjarnan að hún verði skoðuð frekar í félmn.