Barnaverndarlög

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 16:34:43 (6036)

2001-03-27 16:34:43# 126. lþ. 99.2 fundur 572. mál: #A barnaverndarlög# (heildarlög) frv., KolH
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[16:34]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég vil eins og aðrir hv. þm. hafa gert fagna framkomnu frv. sem hér er til umræðu, frv. til barnaverndarlaga. Ég vona sannarlega að í þessu máli sannist hið fornkveðna að góðir hlutir gerist hægt því eins og kemur fram í grg. með frv. rekur það sögu sína aftur til ársins 1997. Sannarlega er ástæða til að ítreka hér þau orð sem fallið hafa hjá hv. þingmönnum að grg. með þessu frv. sætir tíðindum. Það hvernig farið er yfir sögulega framvindu mála í þessum málaflokki er algjörlega til fyrirmyndar og auðveldar þingmönnum sannarlega vinnuna. Mér finnst ástæða til þess að ramma þetta sérstaklega inn hér, herra forseti, þar sem ég á ekki sæti í hv. félmn. Með því að renna yfir grg. sem fylgir frv. hef ég, sem er ekki vel kunnug málaflokknum, fengið mjög góða yfirsýn yfir það sem á undan er gengið og finnst ég hafa fullar forsendur til að koma í ræðustól og taka þátt í 1. umr. um málið.

Hins vegar er athyglisvert varðandi umræðuna að það eru einungis hv. þingkonur sem hafa komið í ræðustól og hér hefur þingsalurinn verið skipaður þingkonum eingöngu þar til núna að hv. þm. Árni R. Árnason er kominn í salinn auk þeirra sem aðild eiga að málinu, hæstv. félmrh. og sá sem stýrir þessum fundi, hæstv. forseti Alþingis, en að öðru leyti er athyglisvert að hér hafa þingkonur setið í stórum hópi, tekið þátt í umræðunni og hlýtt á hana. Ég vona sannarlega, herra forseti, að þetta sé ekki til marks um áhugaleysi þeirra karla sem kosnir hafa verið til starfa á Alþingi um þennan málaflokk.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vakti athygli á því í máli sínu að félmrn. hefði gert ákveðnar breytingar á tillögum nefndarinnar. Ég held að full ástæða sé til að það sé skoðað í hv. félmn. hvort nefndin, sem hefur átt þátt í samningu þessa frv. og hefur starfað svo lengi og svo vel sem raun ber vitni, sé sátt við þær breytingar sem gerðar hafa verið í ráðuneytinu eftir að hún skilaði af sér. Full ástæða er til þess að ramma þetta inn því að það hefur gerst að nefndir skili af sér frumvörpum til ráðuneytis. Síðan koma frv. fram sem nefndum eru beinlínis eignuð en þá hafa verið gerðar einhverjar grundvallarbreytingar í ráðuneytinu sem nefndin hefur í raun og veru ekki haft umsagnaraðild um eða átt neina aðkomu að. Ég er því sannarlega hlynnt því að við verðum upplýst um hvort nefndin sé sátt við þær hugmyndir eða tillögur, breytingartillögur sem komu frá ráðuneytinu.

Ef við lítum á 1. gr. þessa frv. þá held ég að hér sé tímamótabreyting til staðar og vil ég, með leyfi forseta, lesa 1. mgr. 1. gr. en hún hljóðar svo:

,,Börn eiga rétt á vernd og umönnun. Þau skulu njóta réttinda í samræmi við aldur sinn og þroska.``

Ég held að það sé afskaplega mikilvægt að við náum þeim aldurstakmörkunum út sem við höfum búið við í lögum hingað til og það sé metið í hvert eitt sinn hvernig þroski barns er með tilliti til þess máls sem um ræðir þannig að við séum ekki að binda aðgerðir eða úrræði við aldur, 12 ára aldur eða 14 ára aldur eða hvað það er, heldur að við fáum metinn þroska barns í hverju einstöku tilfelli. Það er afar mikilvægt, herra forseti, að því sé fylgt eftir að það séu hæfir starfsmenn og það er raunar engin ástæða til að ætla annað en að það verði hæfir starfsmenn sem komi til með að sinna því mati en það verður að fylgja því eftir að slíkt sé gert og þá jafnframt að foreldrar eigi möguleika á að leggja þar eitthvað til mála því að vissulega má til sanns vegar færa að faglegir starfsmenn, sem koma að málum sem hér um ræðir, eiga auðvitað að geta séð eftir þroska barns hvað það er sem viðkomandi barn mundi þurfa í hverju tilfelli en sömuleiðis má hugsa sér að foreldrar geti haft ákveðna aðkomu með tilliti til þess að þeir geti þá beðið um ákveðna meðferð fyrir barnið og það sé þá tekið tillit til þeirra.

Önnur grein sem mig langar til að nefna hér, herra forseti, sem kemur örlítið inn á þessi aldursmál, er 3. gr., en í henni segir, með leyfi forseta:

,,Með börnum er í lögum þessum átt við einstaklinga yngri en 18 ára. Barnaverndaryfirvöld geta ákveðið með samþykki ungmennis að ráðstafanir sem gerðar eru á grundvelli laganna haldist eftir að þau eru orðin 18 ára, allt til 20 ára aldurs.``

Hér er líka merkt nýmæli á ferð, þ.e. að möguleiki sé á þessari lengingu um tvö ár, að við höfum möguleika á úrræðum barnaverndarlaga tveimur árum lengur en sjálfræðisaldurinn segir til um.

En það er eitt sem vekur umhugsun hjá mér varðandi þau réttindi sem börn eiga að njóta samkvæmt lögum þessum til 18 ára aldurs og það varðar menntamál og fræðsluskyldu stjórnvalda. Nú liggur, herra forseti, fyrir þessu þingi þáltill. frá þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs um tólf ára samfellt grunnnám, sem sagt fræðsluskyldu til 18 ára aldurs. Það er mál sem má telja til réttinda barna. Ef lögin ganga út frá því að börn séu börn til 18 ára aldurs þurfum við í því samhengi að skoða skyldu stjórnvalda gagnvart öllum börnum meðan þau teljast börn. Ég tel í hæsta máta eðlilegt að hv. félmn. skoði fræðsluskylduhlutverk stjórnvalda með tilliti til þessa sem ég nú hef nefnt.

Herra forseti. Rétt er að geta um það, sérstaklega í dag þar sem við vorum að fjalla um vændi á Íslandi í utandagskrárumræðu, að þá er alveg ljóst að Íslendingar eru ekki það góðir við börnin sín að mál af því tagi sem við ræddum fyrr í dag, um vændi á Íslandi, komi upp á okkar borð og þau alvarlegu mál sem tengjast þeirri umræðu koma að sjálfsögðu líka til umfjöllunar í hv. félmn. í tengslum við þessa umræðu um barnavernd almennt. Það er sannarlega þyngra en tárum taki að við skulum horfa upp á það hér árið 2001 að við skulum ekki hafa borið gæfu til að sinna öllum börnum samfélagsins á þann hátt sem okkur fyndist vera sómi að, þannig að hér er mikil ábyrgð sem hvílir á hv. félmn. að skoða þetta mál vel og fara um það þeim faglegu höndum sem henni er unnt.

Ég vil í lokin segja, herra forseti, að mér sýnist málið vera þannig lagt upp að það eigi að geta farið fram mjög frjó og skapandi umræða í hv. nefnd. Ég segi það með nokkrum söknuði að ég skuli ekki eiga sæti í nefndinni því að það er alveg ljóst að hér er á ýmsu að taka og málefni sem skiptir verulegu máli að takist vel til með lagasetningu. Mínar góðu óskir fylgja því þessu máli inn í hv. félmn.