Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:19:23 (6046)

2001-03-27 17:19:23# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., ÁRÁ
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:19]

Árni R. Árnason:

Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna framkomu þess frv. sem hér um ræðir og geta þess að ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við ættum að breyta lögum sem varða starfsmöguleika sparisjóðanna þannig að þeir geti sem fyrst valið þá leið hver um sig sem þeim hentar til að taka þátt í samkeppni við önnur fjármálafyrirtæki undir sömu skilyrðum, við sömu réttindi og með sömu ábyrgð. Ástæða mín er sú, herra forseti, að sparisjóðirnir eru með elstu fyrirtækjum í landinu. Óskynsamlegt væri að haga þannig ákvæðum sem um þá gilda að þeir hrökklist út úr starfsemi á fjármálamarkaði og þess vegna eðlilegt að gera þeim kleift að taka þátt í þeim breytingum sem markaðurinn kallar á.

Ég minnist þess er ég starfaði við Sparisjóðinn í Keflavík á sínum tíma að þá var þar á ferðinni milli 50 og 60 ára gamalt fyrirtæki og þetta var fyrir nokkrum áratugum. Þá störfuðu við stjórn hans ábyrgðarmenn sem höfðu gegnt því mismunandi lengi, höfðu aldrei á nokkurn hátt notið þess sem starfsemin gaf af sér og áttu aldrei von á því. Þeir sinntu því hlutverki af stakri prýði og ég hygg að svo hafi verið alls staðar um landið þar sem sparisjóðirnir hafa starfað að ábyrgðarmenn þeirra hafi gegnt stjórnunarstörfum fyrir þá með þeirri prýði að við sjáum sparisjóðina enn í dag lifandi og kvika og tilbúna til samkeppni við yngri fyrirtæki í fjármálastarfsemi.

En þeir þurfa á því að halda, herra forseti, að geta breytt fyrirkomulagi eigin fjár og aflað eigin fjár til viðbótar, áhættufjármagns sem eigendur, nú hluthafar, eru tilbúnir að taka sjálfir ábyrgð á, hver að sínum hluta en ekki sameiginlega, og leggja féð fram úr eigin sjóðum. Ég hygg að það skipti miklu máli, herra forseti, að gera þetta þannig að sparisjóðirnir geti valið tíma, það kann að vera að þeim henti ekki öllum að gera þetta á sama tíma, kann að vera að þeim henti ekki öllum að gera þetta yfirleitt. Það kann líka að vera að einhverjum þeirra henti að gera þetta snarlega vegna þeirrar samkeppni sem ríkir á því svæði sem þeir hafa haslað sér völl. Þeir eru allir í dag svæðisbundnir og mjög líklegt að þeir kjósi að haga starfsemi sinni þannig að svæðisbundin einkenni, svæðisbundin tengsl þeirra við atvinnulíf og samfélag haldist, sem verður væntanlega þá líka til þess að þeir muni ekki verða keppendur á landsmarkaði ef svo má segja.

Hins vegar er staðreynd að þeir hafa með samtakamætti sínum komist langt áleiðis og ég hygg að rétt sé að skapa alla möguleika þeirra til að viðhalda því sem þeir telja best og sleppa því sem þeir telja lakast eða vera sér fjötur um fót.

Ég tel ekki við hæfi, herra forseti, að við reynum að persónugera stjórnendur sparisjóðanna eða það hlutverk sem þeir hafa leikið sem mér fannst því miður brydda á í fyrri hluta umræðunnar. Staðreyndin er sú að sparisjóðirnir eru, um leið og þeir eru hver öðrum líkir, líka hver öðrum ólíkir. Við getum alveg rakið hvaða breytingar þeir hafa orðið að upplifa. Í flestum tilvikum hafa þeir ekki haft rétt til þess að móta þær sjálfir nema þá ef við látum þetta frv. verða að lögum. Þá geta núverandi stjórnendur þeirra, stofnfjárhafar sem hafa tekið við hlutverki ábyrgðarmanna, ákveðið eigin framtíð þeirra sem þeir geta ekki í dag hvað þetta varðar.

Það eru fáeinir áratugir síðan hlutverki ábyrgðarmanna var breytt í hlutverk stofnfjáreigenda. Þeir lögðu fram fé. Smám saman, það tók allnokkur ár, var ákveðið að þeir gætu keypt slíka fjárfestingu með sambærilegum kjörum og aðrir máttu kaupa í hlutafélögum, þ.e. gagnvart sköttum. Enn þá eru þessi ákvæði þó þannig að takmarkanir eru settar við því að skipta um eigendur að bréfunum. Það kann að vera að einhverjir sparisjóðir kynnu að telja sér það til hagsbóta í framtíðinni, en alls ekki víst að henti þeim öllum. Þá er eðlilegast að þeir geti sjálfir tekið skrefið til þess að breyta formi sínu í form hlutafélags.

Það er alveg ljóst, herra forseti, að það eru nokkrar fleiri ástæður til þess, þó að ég ætli ekki að rekja þær, að sumir sparisjóðanna kunni að sjá sér beinlínis hag í skiptum sínum við annars vegar stofnfjáreigendur eða síðar hluthafa, að framkvæma slíka breytingu, en það mun ekki skipta neinu meginmáli, ekki fyrir málið í heild. Það mun hins vegar vera eitt af því sem núverandi stjórnendur sparisjóðanna hljóta að meta þegar þeir ákveða hver um sig næstu skref sín.

Herra forseti. Ég tel að skipti meginmáli að rekja, sem við vitum ef við lítum til baka, að á síðasta áratug, að þegar mjög þröngt var í búi, undir lok níunda og byrjun tíunda áratugarins á fáeinum árum sem voru einna erfiðust Íslendingum um nokkurt tímabil, ríkti óðaverðbólga sem var í fyrsta sinn verið að vinna bug á. Eigið fé þessara sparisjóða eins og allra annarra sjóða hafði brunnið upp og það var ástæða þess að þeir þurftu að leita til nýrra eigenda að áhættufé. Á þeim tíma kom fram þessi hugmynd um stofnfjáreigendur, stofnfjárbréf og framlög þeirra, áhættuframlög. Þeir hafa aldrei notið sömu réttinda eða farið með sömu skyldur og hluthafar í hlutafélögum. Hafi þeir hug á að breyta formi þess sparifjár síns eiga þeir í sparisjóðunum það undir öðrum eigendum öndvert við það sem gerist í hlutafélögum þar sem þeir eiga það við sig sjálfir hver og einn.

Staðreyndin er sú að um hríð virtist þetta gagnast sparisjóðunum nokkuð vel en eftir því sem tímar hafa fram liðið og fleiri breytingar hafa orðið á fjármálastarfsemi í landinu, og raunar ekki aðeins í landinu heldur því evrópska fjármálakerfi sem við Íslendingar erum nú hluti af hefur komið betur í ljós að það hentar sparisjóðunum ekki fyllilega. Það er af þeim ástæðum sem þetta frv. hefur orðið til, mikið til fyrir frumkvæði stjórnenda í sparisjóðunum, mönnum sem bera ábyrgð á fjármunum sem þeir eiga ekki sjálfir og hafa gert það vel að mínu viti. Ég vil eindregið taka undir þær hugmyndir, herra forseti, að þeim verði gert kleift að fara þessa leið. Til þess að nútímavæða sparisjóðina, ef þeir vilja svo við hafa, til að þurfa ekki standa frammi fyrir því að þeim sem hafa lagt fram áhættufé kunni að verða mismunað vegna ákvæðanna sem um það gilda, til að þurfa ekki að starfa við takmarkað aðgengi að samkeppni á fjármálamarkaðnum, til að geta hegðað sér og starfsemi fyrirtækja sinna með sama hætti og keppinautar þeirra. Þetta er mergurinn málsins, herra forseti.

Ef við lítum á það sem sagt hefur verið um sparisjóðina í umræðunni verð ég að viðurkenna að ég get ekki séð í dag nokkurn mun á hlutverkum stjórnar sparisjóðs og á hlutverki stjórnar í hlutafélagabanka eða viðskiptabanka. Það er einfaldlega ekki rétt, sem hér hefur verið ýjað að, að stjórnir sparisjóðanna starfi með einhverjum öðrum hætti eða að þær hafi eitthvert annað hlutverk. Um það gilda einfaldlega sömu lögin, um báða þessa aðila, sparisjóði og viðskiptabanka, um störf og hlutverk stjórnar. Með því móti sem hér er gert verður til ný stofnun, sjálfseignarstofnun, sem fer með það eigið fé sem er í dag bundið í hverjum sparisjóði án þess að eigandi sé tilgreindur. Því verður sem sé fundinn eigandi.

Hér í umræðunni hefur komið fram það sjónarmið að það ætti að reyna að finna persónulega eigendur að þessu fé, en þá verðum við að minnast þess, herra forseti, að um önnur fyrirtæki sem hafa verið með ópersónugreint eigið fé eftir afrakstur af rekstrinum, þ.e. samvinnufélög, kaupfélög og tryggingafélag sem er núna eignarhaldsfélag Brunabótafélags Íslands, um þau fyrirtæki giltu önnur ákvæði um dreifingu arðs af starfseminni en hafa gilt um sparisjóðina. Ég tel, herra forseti, að okkur sé ekki heimilt gagnvart réttarfarslegum skilyrðum að breyta hlut aðila, einstaklinga sem fara með slík réttindi eða skyldur, þ.e. fjárhagsleg réttindi eða skyldur, að breyta hlut þeirra innbyrðis um leið og breytt er almennum reglum um starfsemina sem um ræðir. Ég tel það vera rangt.

Staðreyndin er sú að um sparisjóðina hefur ævinlega gilt það að ábyrgðarmenn þeirra og síðar stofnfjárhafar hafa ekki rétt til að kalla eftir arði af þessu óskipta eigin fé og það hefur aldrei átt að skiptast upp á milli þeirra. Eina ákvæðið um uppskiptingu var og er að ef sparisjóður er lagður niður og hættir starfsemi, þá á að skipta þessu eigin fé upp, ekki til stofnfjárhafa, ekki til ábyrgðarmanna þar áður, heldur til tiltekinnar starfsemi á svæðinu sem hann starfar í. Það er greinilega í beinum tengslum við þau ákvæði sem í þessu frv. er fjallað um hvaða tilgang og hlutverk sjálfseignarstofnunin eigi að hafa og fara með. Þar er fullkomið samræmi.

Ég verð að viðurkenna, herra forseti, að mér finnst ekki við hæfi að gera því skóna að einstaklingar sem hafa starfað eins og gerst hefur í sparisjóðunum um langt bil og sýnt þá frammistöðu sem þeir hafa sýnt í samkeppni við fyrirtæki sem hafa jafnvel starfað við auðveldari lagaákvæði, auðveldara lagaumhverfi, hafi starfað að einhverju leyti með annarleg sjónarmið í huga. Ég hef enga ástæðu til að taka undir slík sjónarmið og tel í raun og veru að þau séu ekki byggð á neinu sem hönd á festir.

Hins vegar tek ég enn undir, herra forseti, að við eigum að gera þessar breytingar, við eigum að gera sparisjóðunum kleift að breytast í almenningshlutafélög ef þau svo vilja. Við vitum að flestir þeirra eru tiltölulega fjölmenn fyrirtæki að stofnfjárhöfum, mjög fáir sparisjóðanna hafa fáa stofnfjáreigendur og þeir sem hafa fæsta eru eingöngu í eigu sveitarfélaga og varla verða sveitarfélög vænd um að vera fámenn fyrirbæri.

En ég tel, herra forseti, að þetta sé mikil nauðsyn til að það eigið fé sem nú er að starfa á fjármálamarkaði fái að starfa þar áfram með sömu réttindum og skyldum og eigið fé í öðrum fyrirtækjum.