Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:33:12 (6049)

2001-03-27 17:33:12# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:33]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Í 37. gr. B á síðu tvö í frv. stendur, með leyfi forseta: ,,Megintilgangur sjálfseignarstofnunarinnar skal vera að stuðla að viðgangi og vexti í starfsemi sparisjóðsins.`` Það á að gæta arðsemi.

Hins vegar velti ég því fyrir mér, herra forseti, hvað gerist þegar fram líða stundir með sjálfseignarstofnun. Stofnfjáreigendurnir geta selt hlut sinn. Þeir eignast hlut í fyrirtækinu nákvæmlega eins og þeir hafa borgað þá eign inn. Þeir fá ekkert umfram það sem þeir hafa borgað inn. Þeir geta selt það, en þeir eru samt eftir sem áður í þeim hópi sem velur stjórn sjálfseignarstofnunar alla ævi og mér sýnist að þeir muni vera þar ævilangt. Þá er fyrsta spurning mín til hv. þm.: Hvað gerist að hans mati þegar stofnfjáreigandinn fellur frá? Verður þá kjörinn nýr? Getur hann tilnefnt eftirmann sinn, t.d. son sinn eða dóttur? Eða hvað gerist?

Síðan er spurningin þegar enn líða fram stundir og þessi hópur er orðinn lítill, því að ég geri ráð fyrir að kosningarrétturinn falli hreinlega niður, ég sé ekkert annað þegar menn falla frá, að sá litli hópur ræður óskaplega stórum hluta í sparisjóðunum og jafnvel þó að sá hluti færi niður í 50% eða jafnvel niður fyrir það, þá er þetta ein rödd. Það er ein rödd sem talar á hluthafafundi og það er þekkt að ef menn dreifa nægilega mikið móthlutafénu, þá ráða þeir áfram um aldur og ævi, þessi litli hópur manna. Ég ætla að spyrja hv. þm. hvort hann hafi það mikla trú á mannskepnunni að fenginni reynslu að það muni ganga vel til lengdar og aldrei muni koma upp misjafn sauður í því fé.