Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 17:54:49 (6052)

2001-03-27 17:54:49# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[17:54]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að stofnfjáreigandi yrði að innleysa stofnfjárhlut sinn ef hann flytti af svæðinu. Það er ekki alveg rétt. Það er heimilt að innleysa stofnfjárhlut að beiðni stofnfjáreiganda ef hann óskar þess sjálfur. Það gerir að sjálfsögðu enginn. Sé sparisjóði breytt í hlutafélag þá eignast stofnfjáreigandinn sparisjóðinn á tvo vegu, annars vegar með hlutabréfi, sem er ekkert mikils virði eða jafnmikils virði og stofnfé hans, en hins vegar með völdum yfir sjálfseignarstofnuninni. Hann fær að stýra sjálfseignarstofnuninni um aldur og ævi.

Hópurinn í heild sinni stýrir þessari sjálfseignarstofnun. Þess vegna gerist það, jafnvel þótt suma eins og hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur dreymi um að sjálfseignarstofnunin sé fjármagn tengt svæðinu, að fjármagnið þarf aldeilis ekki að haldast þar. Ef stofnfjáreigendurnir flytja allir af svæðinu og búa annars staðar þá stýra þeir fé og það er náttúrlega ekkert bundið einhverjum stað. Þeirra hagsmunir geta verið allt aðrir en hagsmunir staðarins. Þeir gætu unnið á móti hagsmunum staðarins, t.d. með því að fá ódýr lán hjá sjálfum sér, þannig að ég sé ákveðna hættu við þetta.

Ég fer ekkert ofan af því að stofnfjáreigendurnir fá með þessari breytingu í fyrsta lagi hlut í hlutafélaginu. Í öðru lagi fá þeir að stýra þessu mikla fé og sá réttur fellur ekki niður nema, að því er mér sýnist, við dauða. Þá fellur hann niður. Við andlát fellur þessi réttur niður. Annars stýra þeir þessu um aldur og ævi, bara sá sem lifir lengst þar til þeir eru orðnir minnst 30, þá þurfa þeir að búa til einhverja reglu um að tilnefna eftirlitsmenn. Þá er það spurning hvort erfingjar hvers og eins taki við eða hvernig það er.