Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 18:01:25 (6055)

2001-03-27 18:01:25# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[18:01]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Með því að gagnálykta við ræðu hv. þm. mætti álykta sem svo að þeir menn sem hingað til hafa stýrt sparisjóðunum, og hv. þm. kallaði reyndar grandvara og góða, hafi fyrst og fremst gætt óeðlilegra hagsmuna. Það er mjög auðvelt einfaldlega vegna þess að hv. þm. leggur málin þannig upp að það virðist sem svo að sú breyting, sem hér er verið að gera og við erum væntanlega sammála um, ég og hv. þm., að er þó til bóta frá núverandi ástandi, bjóði upp á mun óeðlilegri hagsmunagæslu en hingað til hefur átt sér stað.

Hins vegar vil ég benda hv. þm. á að gert er ráð fyrir því að fulltrúaráðið skipi aldrei færri en 30 menn, aldrei færri, og þar eru menn vissulega að skjóta inn ákveðnum varnagla. En ég vil endurtaka og ítreka þá hugmynd sem ég setti hér fram og vona að nefndin vinni með um bakhjarla sem mundu þá væntanlega virka sem eigendur vegna þess að ég vil miklu frekar sjá að nýjum eigendum sé seldur aðgangur en þeim sé gefinn hann. Og ég get vel hugsað mér að bakhjarlar sem væru myndaðir af þeim aðilum á starfssvæðinu sem eiga að njóta góðs af fénu, ef það verður selt, virki sem slíkir. Ég sé ekki ástæðu til að við förum að deila þessu fé út og síst með þeim hætti sem hv. þm. nefndi, á grundvelli reynslukvótans varðandi skuldir og inneign. En ég lít svo á að við séum með í höndum frv. sem vísar fram á við, sem hægt er að gera betra áður en það verður að lögum ef menn fara í það með opnum og skapandi hætti. Og þá geti þeir sparisjóðir sem kjósa að breyta sér í hlutafélög, sem við vitum ekki hvort verða einhverjir eða hversu margir það verða, tekist á við framtíðina á sæmilega lýðræðislegan hátt. Hvað hina varðar er auðvitað annað mál.