Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 18:03:45 (6056)

2001-03-27 18:03:45# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., SJS
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég mun ekki lengja þessa umræðu mikið. Ég ræddi allítarlega og efnislega um þetta mál í gær, fór yfir það í ræðu sem ég áttaði mig ekki á þegar ég var að flytja hana að gæfi tilefni til mikilla ýfinga eða andsvara. Engu að síður fór svo að ekki færri en þrír hv. þm., tveir hv. þm. Samfylkingarinnar og einn hv. þm. Framsfl., komu upp í andsvör við ræðu mína og svo merkilega vildi til að allir voru þeir með sömu undarlegu útlegginguna á ræðunni og hefði í sjálfu sér verið nóg fyrir einn þeirra að flytja andsvarið og hinir hefðu getað komið upp og sagt ,,dittó`` eða fallið frá orðinu.

Ég ætla þar af leiðandi að fara örstutt yfir meginafstöðu mína í málinu ef það mætti verða hv. þm., sem hafa átt eitthvað í erfiðleikum með að átta sig á fyrri ræðu minni, til upplýsingar og hjálpar við að átta sig á stöðu málsins. En mér þykir að sjálfsögðu vænt um þá umhyggju sem þeir sýna afstöðu minni í málinu, að hún skuli þá fá athygli sem raun ber vitni.

Ég nálgast málið, herra forseti, í fyrsta lagi út frá því að sparisjóðirnir séu ákaflega mikilvægar og að mörgu leyti góðar stofnanir, mikilvægar vegna eðlis síns og stöðu sem sjálfstæðar stofnanir í héraði og hafi enda notið þeirra kosta sinna í góðu gengi á undanförnum árum. Staðreyndin er að sparisjóðunum hefur vegnað mjög vel og ég leyfi mér að segja að í gengi þeirra á undanförnum árum yrðu ekki sótt sérstök rök fyrir því að starfsumhverfi þeirra væri áfátt í einhverjum þeim mæli að það kæmi niður á velferð þeirra.

Hins vegar eru ýmsar aðstæður breyttar og sumir sparisjóðirnir, eins og ég fór yfir, hafa vaxið svo hratt að eiginfjárhlutfall þeirra hefur farið lækkandi af þeim sökum og sú framtíð er í sumum tilvikum fyrirsjáanleg að óbreyttu að þeir rekist á þau mörk og annað tveggja lendi niður fyrir þau eða að rifa verði seglin og þeir geti ekki aukið starfsemi sína með svipuðu móti á komandi árum og þeir hafa gert hingað til.

Ég nefndi í þriðja lagi, herra forseti, að burt séð frá þeim aðstæðum og rökum sem menn hefðu fyrir því að skoða breytingar af því tagi sem frv. gerir ráð fyrir væri að sjálfsögðu ástæða til að rökstyðja þær og gefa sér ekki fyrir fram að réttast væri eða skynsamlegast að ráðast í slíkar breytingar og þaðan af síður nákvæmlega á þessu formi.

Ég fór yfir þá kosti sem mér sýndust vera í stöðunni og get rifjað það upp að þeir séu í aðalatriðum fjórir. Sá fyrsti væri að aðhafast ekki og láta á það reyna enn um sinn hvort sparisjóðunum dugar ekki ágætlega sú löggjöf sem um þá gildir. Það er alls ekki svo að alls staðar í Evrópulöndum t.d. þar sem sparisjóðir eru öflugir og útbreiddir að lögum um þá hafi verið breytt. Á Spáni, í Þýskalandi og víðar eru mjög öflugir sparisjóðir sem hafa upp undir helmings markaðshlutdeild innlánsstofnana í þeim löndum og starfa sem klassískir eða hreinir sparisjóðir það ég best veit.

Annar kosturinn væri þá sá að láta reyna á það sem ég hef kallað B-leið eða norska leið fyrst, og sjá hvort það nýttist þeim sparisjóðum sem vildu prófa þá leið til að sækja sér aukið fé.

Þriðji möguleikinn er þá hlutafélagaleiðin sem hér er lögð til í frv.

Fjórði möguleikinn --- um hann ræddi ég aðallega og var inntakið í síðari hluta ræðu minnar --- var spurningin um að leyfa þeim möguleikum báðum að vera til staðar og hafa löggjöfina þannig úr garði gerða að það gæti verið valkvætt fyrir sparisjóðina, þessir þrír kostir í stöðunni, að þeir héldu sínu rekstrarformi óbreyttu, að þeir breyttu starfsemi sinni í hlutafélagaform eða þeir nýttu sér heimildir í lögum til þess að gefa út B-deildarskírteini eða B-hlutabréf og ykju þannig hlutafé sitt og styrktu eiginfjárstöðu sína með þeirri leið sem farin hefur verið í Noregi og gefist þar ágætlega vel.

Ég rökstuddi þennan kost sérstaklega, herra forseti, og lýsti mig mjög jákvæðan gagnvart því að þetta yrði rækilega skoðað og fór reyndar fram á að hv. efh.- og viðskn. gerði það, og tók sérstaklega fram í máli mínu að ég væri ekki andvígur því heldur þvert á móti sé ég ekki ástæðu til að leggjast gegn því að sparisjóðirnir fái heimildir til að haga málum sínum í lögum eins og þeir og stofnfélagar þeirra telja þeim henta best. Það tel ég vera breytingar í anda þess að virða sjálfsákvörðunarrétt og sjálfstæði þessara stofnana og það tel ég eiga að vera útgangspunkt í málinu. Mér er alveg ljóst að a.m.k. sumir af stærri og stærstu sparisjóðum landsins eru mjög áhugasamir um hlutafélagaleiðina sem hefur orðið niðurstaðan í frv., en ég fullyrði einnig að meðal margra forsvarsmanna minni sparisjóða og almennra aðstandenda sparisjóðanna í byggðarlögum hefur líka verið og er áhugi á því að skoða aðrar mögulegar leiðir. Það veit ég vel af samtölum við marga slíka menn.

Ég vonast þess vegna til að menn fallist á að skoða þetta mál með mjög opnum huga í hv. efh.- og viðskn. og að hæstv. viðskrh. sé því jafnframt velviljaður að engum dyrum sé lokað í þessum efnum. Mér kæmi ekki á óvart, ef nefndin fær til sín talsmenn t.d. ýmissa minni sparisjóða eða sparisjóðahópa af landsbyggðinni, að þar kæmu býsna sterk sjónarmið í þá veru að mikilvægt sé að búa þannig um þessar breytingar að þær geri sparisjóðunum kleift að varðveita eðli sitt og halda í þá kosti sem þeir hafa sem sjálfstæðar fjármálastofnanir í heimabyggð sinni og í því návígi og þeim góðu tengslum við viðskiptavini sína, fyrst og fremst almenning og kannski minni fyrirtæki og rekstraraðila eðli málsins samkvæmt, sem hefur verið aðalsmerki sparisjóðanna.

Ef þetta er leiðarljósið, herra forseti, í þessum breytingum er ég bjartsýnn á að hér sé hægt að ná góðri samstöðu um að lagfæra, skulum við segja og vona að reynist rétt, starfsumhverfi eða starfsgrundvöll sparisjóðanna þannig að þeir hafi meira sjálfræði um það hvernig þeir búa um rekstur sinn. Fyrir mér er aðalatriðið að þeir fái að halda sérkennum sínum og kostum því að eins og ég sagði áður sér maður í fljótu bragði ekki mikinn tilgang með því að þeir séu yfir höfuð til og að greinarmunur sé yfir höfuð gerður á þeim og almennum, venjulegum viðskiptabönkum nema löggjöfin búi þeim möguleika til þess að halda sérstöðu sinni og sérkennum sínum. Þannig held ég að þeir þjóni best þeim tilgangi og þeim markmiðum sem hugsunin á bak við þá er, góð og félagsleg og gild sem hún er, og ákveðin frávik eða fjölbreytni í þeirri flóru sem til staðar er og gegn straumnum að sumu leyti sem hefur verið í átt til gríðarlegrar samþjöppunar og fjarstýringar þar sem stórir bankar, sem hafa verið að verða til og aðrir sem voru þar fyrir, eru tiltölulega miðstýrðar stofnanir í eðli sínu og byggja á miðstýrðri ákvarðanatöku og tiltölulega litlu sjálfræði eða sjálfsákvörðunarrétti þegar kemur út í útibú og afgreiðslustaði í einstökum byggðarlögum. Þar eru sparisjóðirnir algjör andstæða og það held ég að sé mjög hollt og gott og þannig eigi það að vera áfram.