Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 18:38:07 (6059)

2001-03-27 18:38:07# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[18:38]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þessa miklu umræðu og þann mikla áhuga sem þetta mál fær í þinginu. Mér finnst ekkert skrýtið að hv. þm. hafi efasemdir og velti þessum hlutum fyrir sér enda erum við að tala um mikla breytingu á starfsumhverfi sparisjóðanna. Þeir eiga sér mikla sögu og miklar tilfinningar í hugum margra. Það á bæði við um landsbyggðarmenn sem og ýmsa á Stór-Reykjavíkursvæðinu, ekki síst í sveitarfélagi hv. síðasta ræðumanns.

Svo ég fari aðeins yfir það sem komið hefur fram í umræðunni þá vil ég fyrst taka fyrir ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem hann hélt í gær og reyndar aftur í dag. Ég gat ekki betur heyrt en hv. þm. væri tiltölulega sáttur við frv. Hann taldi þó mikilvægt að skoða það mjög ítarlega og hvort ekki væri rétt að bjóða sparisjóðunum upp á fleiri valkosti, t.d. með útgáfu nýrra B-deildar bréfa sem væri líkt því sem þekktist í Noregi, þ.e. ný tegund bréfa með aukinn arðsrétt sem ganga kaupum og sölum á markaði. Jafnframt talaði hann um að nauðsynlegt væri að varðveita hið sérstaka eðli sparisjóðanna og virða sjálfsákvörðunarrétt þeirra.

Ég tel æskilegt að sparisjóðirnir verði áfram meginstoðir í bankakerfinu víðs vegar um landið. Þetta eru yfirleitt lítil fyrirtæki í nánum tengslum við sitt nánasta umhverfi sem þekkja vel þarfir viðskiptavina sinna. Í kjölfar meiri samkeppni og sístækkandi eininga á fjármagnsmarkaði er ljóst að litlir sparisjóðir eiga á brattann að sækja. Ég tel því að löggjafinn eigi að hlúa þannig að sparisjóðum að þeir hafi yfir þeim tækjum að ráða sem nauðsynleg eru í þessari samkeppni. Hins vegar tel ég að ríkið eigi ekki að ráðskast með þá heldur virða sjálfsákvörðunarrétt sparisjóðanna. Þeir verða að taka ákvörðun um eigin framtíð og sjálfir að marka stefnuna. Það á enginn annar að gera það fyrir þá og út á það gengur þetta mál.

Frv. veitir sparisjóðunum heimild til þess að breyta sér í hlutafélög. Það er ómögulegt að segja til um það fyrir fram hvaða stefnu hver og einn sparisjóður mun taka í þessu máli. Það má heldur ekki gleyma því, sem reyndar hefur lítið verið rætt hérna, að frv. gerir ráð fyrir að sparisjóðir sem ekki breyti sér í hlutafélög verði betur settir en áður. Það eru gerðar breytingar á ákvæðum um stofnfjárbréf sem gera það að verkum að arðsvon af þeim verður betri og það verður auðveldara að selja þau. Það mun ekki lengur þurfa andlát stofnfjáreigenda, fjárslit á milli hjóna eða brottflutning af starfsvæði til að geta losað sig við eignarhlut í sparisjóði.

Samkvæmt frv. verður einnig heimilt að leggja ákveðinn hluta hagnaðar á stofnfjárreikninga stofnfjáreigenda. Þessi ákvæði eru mjög mikilvæg, opna fyrir meiri viðskipti með stofnfjárbréf og aukna arðsvon af þeim. Sparisjóðirnir eiga því valkosti og það er þeirra að vinna úr þeim.

Hvað varðar möguleikann á að bæta enn fleiri valkostum við í flóruna þá tel ég í sjálfu sér enga ástæðu til að ganga svo langt. Að mínu mati er þó eðlilegt að efh.- og viðskn. fari yfir þá möguleika sem til staðar eru, þau gögn sem til eru um málið og reynsluna erlendis. En af hverju var B-deildar leiðin ekki valin? Hún var vissulega rædd. Það var fyrst og fremst vegna þess að allar líkur benda til að bréfin séu illa eða ekki samkeppnishæf á markaði og umtalsvert dýrari leið fyrir sparisjóðina. Með B-deildar bréfum er verið að reyna að búa til markaðsverðbréf sem líkjast hlutabréfum eins og kostur er en þau eru ekki hlutabréf og fjárfestar þekkja þau ekki. Það þarf að setja umfangsmikil ákvæði í löggjöf um þau. Fjárfestar eru ekki tilbúnir til þess að festa fé sitt í slíkum bréfum nema með álagi. Fjármagnskostnaður sparisjóðanna hækkar þess vegna. Þetta er vel þekkt frá Noregi, af því að Noregur hefur verið mikið nefndur, og sparisjóðanefndin fór m.a. könnunarferð til Noregs þar sem rætt var við sparisjóði um B-deildar bréf.

Stærsti sparisjóður Noregs, SparNor, telur að kostnaður við B-deildar bréfin sé fjórðungi hærri en af hlutabréfunum. Þessi sparisjóður hefur óskað eftir því að fá sérstaka heimild löggjafarvaldsins til að breyta sér í hlutafélag. Ég veit líka að fulltrúar íslensku sparisjóðanna hafa verið á ferðinni í Noregi til þess að fá upplýsingar um mál þar frá fyrstu hendi. Þetta m.a. liggur því til grundvallar að þessi leið er ekki hátt skrifuð í frv. og ekki gerð tillaga um hana.

Það var eitt í máli hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur sem ég vildi leiðrétta. Hún sagði að í frv. væru sparisjóðir sem breyttu rekstrarformi sínu í hlutafélög einhvers konar afbrigði af almennum hlutafélögum samkvæmt hlutafélagalögum. Þetta er ekki svona. Sparisjóðir sem breytast í hlutafélög starfa alfarið samkvæmt lögum um hlutafélög og lagaákvæðum um hlutafélagabanka. Lagaákvæði um hlutafélagabanka gilda um sparisjóð sem breytt hefur verið í hlutafélag að öðru leyti en því að kveðið er á um sérstaka atkvæðatakmörkun í sparisjóðnum, eins og hv. þm. muna eflaust að er um 5%.

Ég tel að það sé rétt stefna í frv. að taka mið af almennum og þekktum rekstrarformum í stað þess að reyna að búa til eitthvað nýtt. Þannig gilda lög um hlutafélög um sparisjóði sem breyta sér í hlutafélög og lög um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur um sjálfseignarstofnanir sem eignast hlutafé í sparisjóði.

[18:45]

Hv. þm. Pétur Blöndal var með ýmsar athugasemdir og það var grundvallarmisskilningur sem kom fram í hans máli. Hann sagði að sala eða framsal stofnfjárhlutar í sparisjóðum sem breyttu sér í hlutafélög væri óheimilt nema með samþykki sparisjóðsstjórnar. Þar með réðu sparisjóðsstjórnirnar öllu í hlutafélaginu.

Þetta er ekki rétt og væri mjög óeðlilegt ef svo væri á málum haldið. Um sparisjóði sem breytast í hlutafélög gilda ákvæði bankalaganna um hlutafélagsbanka. Það eru engar hömlur á viðskiptum með bréfin og sparisjóðirnir geta ekki ráðið sölu og framsali. 18. gr. laganna, sem hv. þm. vísar í, gildir hins vegar áfram um þá sparisjóði sem breyta sér ekki í hlutafélög.

Það var ýmislegt annað sem kom fram í máli hv. þm. Péturs H. Blöndals sem ég er ósammála. Hv. þm. vill að fundnir séu eigendur að sparisjóðunum og þeir séu munaðarlausir í dag og hann hafi ímugust á fé sem enginn á. Hann kom með tillögu um að afhenda stofnfjáreigendum og viðskiptavinum þau verðmæti sem í sparisjóðunum eru og það fyrirkomulag sem nú sé verið að koma á verði rotið, spilling grasseri, mannskepnan sé breysk og gömlu stofnfjáreigendurnir muni ota sínum tota og koma miklum verðmætum undan til menningar- og líknarfélaga sem sett væru á laggirnar af velunnurum stofnfjáreigenda eingöngu í þeim tilgangi að komast yfir fé. En það kom hins vegar á óvart að hv. þm. Pétur H. Blöndal telur að sparisjóðirnir hafi staðið sig vel hingað til þrátt fyrir að óljóst eignarhald sé á þeim.

Varðandi eignarhald kemur ekki til greina að afhenda stofnfjáreigendum eða einhverjum öðrum verðmæti sem þeir geta ekki gert tilkall til. Það kemur skýrt fram í lögum um viðskiptabanka og sparisjóði að stofnfjáreigendur skuli einungis njóta arðs af innborguðu stofnfé sínu. Þeir eiga ekki tilkall til uppsafnaðs hagnaðar sparisjóðsins. Þetta er lykil\-atriði í frv. Þar sem stofnfjáreigendur geta ekki gert tilkall til stórs hluta af hlutafé sparisjóða verður sjálfseignarstofnunin í öllum tilvikum langstærsti hluthafinn. Það er visst vandamál, en það verða sparisjóðirnir að leysa. Hlutverk sjálfseignarstofnunarinnar er að stuðla að vexti og viðgangi í starfsemi sparisjóðsins. Ráðstöfun fjár sjálfseignarstofnunarinnar er til líknar- og menningarmála á starfsvæði viðkomandi sparisjóðs. Það er nákvæmlega sama ráðstöfun og fram kemur í samþykktum sparisjóða í dag og hefur ekki það ég veit valdið vandræðum hingað til.

Hv. þm. taldi að sjálfseignarstofnunin mundi aldrei selja hlut sinn, hún mundi alltaf vilja halda völdum í sparisjóðnum og ólíklegt sé að nýir fjárfestar séu tilbúnir til að koma inn í rekstur sparisjóðsins ef einn aðili hyggist halda völdum um ókomna tíð. Það er reyndar alveg rétt hjá hv. þm. að það er ólíklegt að fjárfestar muni vilja koma inn í rekstur sparisjóðsins ef sjálfseignarstofnunin hefur í hyggju að halda yfirráðum yfir sparisjóðnum um aldur og ævi. En það er engin ástæða til að hafa áhyggjur af þessu að mínu mati.

Ég vil þá aðeins koma inn á það sem kom fram í ræðum síðustu hv. ræðumanna. Ég tel að hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir hafi verið í öllum aðalatriðum mjög jákvæð í garð frv. þótt hún velti fyrir sér fulltrúaráðinu og hvernig valið er til stjórnar. En það hafa fleiri hv. þm. komið inn á og auðvitað er það hlutverk hv. nefndar að fara yfir þau atriði eins og önnur. En ég ítreka að það er ekki af neinni tilviljun sem mál eru sett fram með þessum hætti í frv. Mál hafa verið rædd ítarlega í þeirri nefnd sem hefur verið að störfum og í nefndum í þó nokkur ár.

Í sambandi við það sem kom fram hjá tveimur síðustu ræðumönnum, hv. þm. Jóhanni Ársælssyni og hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, þar sem þeir velta mikið fyrir sér þessu með tiltölulega fáa stofnfjáreigendur og að þeir skuli hafa þau völd að kjósa til stjórnar sparisjóðsins og reka hann og ráða þar ferð, þá gat ég ekki heyrt að hv. þm. hefðu í sjálfu sér aðrar hugmyndir um hvernig leysa skyldi þessi mál nema þá það að hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson hefur efasemdir um að það eigi að opna á þann möguleika að sveitarfélög kjósi ekki lengur til stjórnar en það er valkvætt eins og frv. er sett fram. Ég sé ekki aðra aðila sem hafa meiri ástæðu til að koma þarna að málum. Og hvað varðar sjálfseignarstofnunina starfar hún að sjálfsögðu samkvæmt lögum um sjálfseignarstofnanir í atvinnurekstri og þau lög eru nokkuð ítarleg.

Einnig vil ég að það komi fram að eftirlit með virkum eignarhlutum, það frv. sem er til meðferðar í þinginu, mun að sjálfsögðu gilda um sparisjóðina eins og aðrar fjármálastofnanir, ef að lögum verður. Það er því ekki eins og viðkomandi einstaklingar geti ráðskast með viðkomandi sparisjóði algjörlega án tillits til laga og eftirlits. Eftirlitið verður mjög mikið og kannski of mikið miðað við ræðu hv. þm. Péturs H. Blöndals þegar það mál var hér til umfjöllunar, en þetta tel ég rétt að komi hér fram.

Hver á sparisjóðina? Mér finnst eiginlega skrýtið að svona sósíaldemókratar, hv. þm., skuli hafa svona miklar áhyggjur af þessu. Ég er alin upp í samvinnuhreyfingunni og það er þannig með kaupfélögin að það er margt líkt með kaupfélögunum og sparisjóðunum, enda náttúrlega á svipuðum tíma sem þessar stofnanir verða til og það er mjög margt áþekkt í samþykktum þessara félaga. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu atriði. Ég sé a.m.k. ekki að það sé önnur leið skynsamlegri en að fara þá leið sem farin er í frv.

Hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson taldi að það væri kannski ekki nauðsynlegt að samþykkja þetta frv. endilega í vor. Auðvitað er það alltaf þingið sem ræður hversu hratt mál fara í gegn. En ég vil þá ítreka að það er búið að vinna þetta mál vel. Ég vona að sú vinna komi nefndinni að gagni, en það var sem sagt fyrst árið 1998 sem fyrrv. ráðherra skipaði nefnd og síðan var það sumarið 2000 sem sú nefnd var skipuð sem vann frv. í öllum meginatriðum.