Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 19:07:35 (6069)

2001-03-27 19:07:35# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[19:07]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég frábið mér það að hæstv. ráðherra sé með ódýra útúrsnúninga í þessu sambandi. Ég var að undirstrika þann veruleika sem við okkur blasir á bls. 7 í hennar eigin frv. og hann er sá að fjárframlag þessara stofnfjáreigenda er sáralítill hluti af eigin fé sjóðanna, hvað þá heldur þegar litið er til heildareigna þeirra. Þessi hópur er tiltölulega fámennur. Það eru fjögur þúsund manns og þar af er meira en helmingur í fjórum sparisjóðanna. Þetta fer allt niður í tvo aðila.

Ég var að kasta því fram af fullri alvöru hvort eitthvað mælti því í mót að fólki í þessu landi væri gefinn kostur á því áður en frv. verður að lögum og þessir sparisjóðir verða settir á almennan markað, að almenningur geti komist í hóp þessara stofnfjáreigenda. Það er mín einfalda spurning. Er eitthvað sem mælir því sérstaklega í mót eða verður það að vera þannig að þessi hópur sem er til staðar, allt niður í tvo aðila, 20 aðila, 30 aðila, hafi um það val og völd hverjir verða með í klúbbnum? Það er undir þeim formerkjum sem ég tala um klúbb og ég bið um svör, en ég fæ þau ekki.