Viðskiptabankar og sparisjóðir

Þriðjudaginn 27. mars 2001, kl. 19:13:09 (6072)

2001-03-27 19:13:09# 126. lþ. 99.4 fundur 567. mál: #A viðskiptabankar og sparisjóðir# (breyting sparisjóðs í hlutafélag) frv., GÁS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 99. fundur, 126. lþ.

[19:13]

Guðmundur Árni Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Það þarf auðvitað ekki að koma nokkrum á óvart að fulltrúum sparisjóðanna í þessari nefnd sé mjög áfram um það að fara þessa leið. Þeir halda þeim völdum og áhrifum sem þeir hafa haft í sínum sparisjóði, og menn hafa verið mjög gagnrýnir á.

Að sönnu er alveg hárrétt hjá hæstv. ráðherra og það hefur verið rætt hér mjög hispurslaust að beinn fjárhagslegur ávinningur er ekki til staðar hjá þessum stofnfjáreigendum, það er enginn að halda því fram. En hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur einmitt bent á ýmsar hættulegar stöður sem gætu myndast í þessu samhengi. Þegar menn hafa völd og áhrif yfir miklum fjármunum, þá getur það stundum og mjög snögglega orðið ígildi fjármagns. Sú hætta skapast óneitanlega við slíkar aðstæður. En ég er ekki endilega að nálgast málið út frá því sjónarhorni. Ég er að nálgast það frá hinni lýðræðislegu sýn sem ég hélt að ég deildi með hæstv. ráðherra, af því að hún nefndi til sögunnar samvinnufélög sem að baki var hópur manna, þúsundir og tugþúsundir manna. Það er undir þeim formerkjum sem ég er fyrst og síðast að ræða málið og ég hrekk við þegar ég sé að hæstv. ráðherra Framsfl. ætlar að koma hér og afhenda til ráðstöfunar og meðferðar þá gífurlegu fjármuni sem þarna liggja undir. Það er undir þeim formerkjum sem ég staldra eilítið við og spyr: Er ekki skynsamlegt að gera þetta kannski með eilítið öðrum hætti og það var þess vegna sem ég kastaði því fram. Er eitthvað sem mælir gegn því að galopna hóp stofnfjáreigenda í sex mánuði og breikka hann og stækka?

Ég sé að við tölum eilítið í austur og vestur í þessu máli eins og í raunar allt of mörgum öðrum, stjórn og stjórnarandstaða, og við komumst sennilega ekki mikið lengra í bili í þessum efnum. En ég mun hugleiða það mjög alvarlega, ef ekki fást viðunandi breytingar á þessu í nefnd, að koma með brtt. við 2. umr. málsins.