Verð á mölun steinefna fyrir Vegagerðina

Miðvikudaginn 28. mars 2001, kl. 13:56:33 (6083)

2001-03-28 13:56:33# 126. lþ. 101.2 fundur 536. mál: #A verð á mölun steinefna fyrir Vegagerðina# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi GunnB
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Fyrirspyrjandi (Gunnar Birgisson):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það er gott til þess að vita að eftir að flokkur Vegagerðarinnar var lagður niður þá breyttist ekki verðið. Ég held að það hafi meira að segja fremur lækkað en hitt.

Hæstv. ráðherra talaði um að það ríkti samkeppni í þessum geira en þó að níu aðilar hafi boðið í verkefni þá held ég að það séu ekki nema fimm virkir í að mala steinefni hjá Vegagerðinni. Svo er ekki í malbikun. Nú eru einungist tvær malbikunarverksmiðjur sem framleiða malbik á þessu svæði, önnur í Reykjavík og hin í Hafnarfirði. Sú þriðja er reyndar á Suðurnesjum en það eru einungis tvær á þessu svæði. Samt er malbik boðið út og Vegagerðin ekki með eigin flokk.

Það sem ég er að tala um er að Vegagerðin þarf ekki að vera með vegagerðarflokka á hverjum fingri til að hafa stjórn á verðinu. Ég vil t.d. benda á hvernig þetta er á Suðurlandi þar sem allt er boðið út, öll þjónusta og allt viðhald. Það hefur gengið mjög vel þannig að ég skil ekki hvers vegna það má ekki gilda yfir allt landið.